Í dag var haldið á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar uppboð á réttindum til notkunar á tíðninni FM 100,5 MHz, á Suðvesturlandi, þ.e. frá Suðurnesjum til Akraness. Með uppboðinu var leitað boða í staðgreiðslugjald fyrir fyrrgreind réttindi.
Tíðniheimildin nær einungis yfir FM hljóðvarpssendingar á jörðu niðri og gildir frá 1. mars 2012 til 28. febrúar 2015.
Fulltrúar tveggja aðila mættu til uppboðsins, þ.e. Lýðræðishreyfingarinnar og Skjásins ehf. Hæsta boð í tíðniréttindin átti Skjárinn, 250.000 kr. Við það bættist kostnaður við uppboðið að upphæð 120 þúsund kr. Heildargreiðsla fyrir tíðniheimildina var því 370.000 kr. Mun Skjánum ehf. í framhaldi af þessu verða úthlutað réttindum til notkunar á tíðninni 100,5 MHz á grundvelli laga um fjarskipti nr. 81/2003.
Heimilt verður að senda út frá Bláfjöllum til 1. október 2012, en eftir þann tíma skal rétthafi flytja sendibúnað á annan stað. Það er alfarið á ábyrgð og kostnað rétthafa að útvega sér sendiaðstöðu. Staðsetning sendibúnaðar er alltaf háð samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar sem metur staðsetningu m.a. út frá truflanahættu.
Til baka