Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á mörkuðum 2, 3 og 10 (upphaf, lúkning og flutningur símtala í talsímanetum)

6. nóvember 2012

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðunum um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf (markaður 2), lúkningu (markaður 3) og flutning (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA) í föstum almennum talsímanetum.

PFS hyggst útnefna Símann sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir upphaf símtala í talsímanetum (markaður 2) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, þ.m.t. kvöð um aðgang og eftirlit með gjaldskrá.

Þá hyggst PFS útnefna Símann, Vodafone, Nova, Hringdu og Símafélagið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir lúkningu símtala (markaður 3) í eigin talsímanetum félaganna og leggja viðeigandi kvaðir á þau. Auk aðgangskvaðar, hyggst PFS m.a. leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á félögin, þannig að lúkningarverð allra félaganna skuli orðin jöfn þann 1. mars n.k. PFS mun síðan ákvarða verð á umræddum markaði með verðsamanburði við þau ríki á EES-svæðinu sem beita nánar tilgreindum kostnaðargreiningaraðferðum við ákvörðun lúkningarverða.

Að lokum hyggst PFS afnema kvaðir á Símann á markaði fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA), þar sem stofnunin telur að virk samkeppni ríki á þeim markaði.

Drög að ofangreindum ákvörðunum voru send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markaði nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka.

Sjá nánar hér á vefnum:

Upplýsingar og skjöl tengd samráðinu við ESA

Upplýsingar um markaðsgreiningu

Til baka