Hoppa yfir valmynd

Fjölmargar leiðir færar til stafrænnar sjónvarpsdreifingar

Tungumál EN
Heim

Fjölmargar leiðir færar til stafrænnar sjónvarpsdreifingar

8. september 2004

Í tilefni af fréttaflutningi vegna úrskurðar Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vill Póst- og fjarskiptastofnun koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Í fréttum Ríkissjónvarpsins og Morgunblaðsins var því haldið fram að Norðurljós búi nú yfir 16 af 21 rás til stafrænna sjónvarpsútsendinga. Mikilvægt er að hafa í huga að fjölmargar aðrar leiðir eru færar við dreifingu stafræns sjónvarps. Þar má nefna UHF/VHF tíðnir, KU-bandið, MWS-bandið, gervihnetti, kapal og breiðband. M.a. af þessari ástæðu telur Póst- og fjarskiptastofnun að ákvörðun stofnunarinnar á sínum tíma hafi ekki á nokkurn hátt takmarkað möguleika á samkeppni í dreifingu á stafrænu sjónvarpi.

Þess ber að geta að úrskurður þessi snýst um svokallaðar MMDS tíðnir, en ekki um hefðbundnar sjónvarpstíðnir sem algengt er að nota til sjónvarpsútsendinga hér á landi þ.e. UHF/VHF tíðnir. Takmarkaður fjöldi UHF/VHF tíðna er sem stendur nothæfur til stafrænna sjónvarpsútsendinga og mun hluti þeirra verða auglýstur til umsóknar innan tíðar, en stofnunin taldi rétt að doka við með slíka auglýsingu á meðan viðræður hagsmunaaðila áttu sér stað um mögulegt samstarf í dreifingu stafræns sjónvarps.

Póst- og fjarskiptastofnun hefði talið heppilegt að úrskurðarnefndin hefði getað tekið á efnisatriðum málsins, enda voru færð ítarleg rök fyrir því í greinargerð stofnunarinnar að ekki hafi verið talin ástæða til að bjóða út tíðnirnar. Í fyrsta lagi áttu útboðsreglur fjarskiptalaga á þeim tíma ekki við um sjónvarpstíðnir, í öðru lagi var nóg framboð af tíðnum og í þriðja lagi var ekki um nýja úthlutun að ræða.

Hins vegar er nauðsynlegt að kærufrestir séu virtir svo að handhafar tíðnileyfa þurfi ekki að eiga á hættu að leyfi þeirra séu véfengd löngu eftir útgáfu þeirra. Því varð að gera ýtrustu kröfur varðandi formhlið kærunnar og úrskurðarnefndinni var rétt að hafna kröfunni þegar af þeirri ástæðu að hún var of seint fram komin. Kærufrestur er fjórar vikur, en í þessu tilfelli barst kæra ekki fyrr en u.þ.b. sex mánuðum eftir að kærendum var sannanlega kunnugt um ákvörðunina.

Fjölmargar leiðir eru færar til að dreifa stafrænu sjónvarpi.

Mögulegt er að nota fjölmörg tíðnisvið til stafrænna sjónvarpsútsendinga og þeirra á meðal er MMDS tíðnisviðið. Notkun MMDS rása er sértæk lausn sem aðeins er notuð í tveimur Evrópuríkjum, Íslandi og Írland. Íslenska útvarpsfélagið hf. hefur frá árinu 1993 haft heimild til að nota þetta tíðnisvið og hefur félagið fjárfest í umfangsmiklu dreifikerfi á SV horni landsins (Fjölvarpið). Póst- og fjarskiptastofnun heimilaði Íslenska útvarpsfélaginu að nota 16 rásir (128 MHz) áfram um nokkurra ára skeið, en ekki var um nýja úthlutun að ræða. Samkvæmt alþjóðlegum samþykktum er tíðnisvið þetta ætlað fyrir þriðju kynslóð farsíma í framtíðinni og því rennur notkunarréttur Íslenska útvarpsfélagsins út eftir tæp fimm ár hvað varðar helming rásanna en eftir sjö ár fyrir hinn helminginn. Tvær MMDS rásir eru lausar í dag, en engar umsóknir liggja fyrir um heimild til að nýta þær til stafrænna útsendinga.

Önnur tíðnisvið sem nota má til dreifingar stafræns sjónvarps með þráðlausum sendum á jörðu niðri eru t.d.:

 

 KU bandið 10,7- 12,5 GHz. Tíðnisvið þetta er alls 1800 MHz. Af því hefur Síminn fengið heimild til að nota allt að 400 MHz, en fyrirtækið hefur ekki nýtt þá heimild. Íslandsmiðill hf. hefur sömuleiðis heimild til notkunar á allt að 400 MHz og hefur fyrirtækið þegar byggt upp dreifikerfi á Reykjavíkursvæðinu og á Akureyri. 1000 MHz eru laus til umsóknar.

 Tíðnisvið fyrir margmiðlun (MWS) 40,5-43,5 GHz.Tíðnisviðið er alls 3000 MHz og er allt laust til umsóknar.

 Hægt er að fara ýmsar aðrar leiðir við dreifingu á stafrænu sjónvarpi. Þar ber fyrst að nefna gervihnattasendingar sem er algengasta dreifingarleiðin fyrir stafrænt sjónvarp innan ESB. Næst algengust eru kapalkerfi. Síminn hefur rekið stafræna sjónvarpsþjónustu á Breiðbandinu í nokkur ár og hyggst nú ná til flestra landsmanna í gegnum ADSL.

 Af þessari upptalningu má vera ljóst að Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki á nokkurn hátt takmarkað möguleika á samkeppni í dreifingu á stafrænu sjónvarpi.

 Þeim sem vilja kynna sér málið nánar er bent á úrskurð nefndarinnar nr. 5/2004 og greinargerð Póst- og fjarskiptastofnunar sem birt eru á heimasíðu stofnunarinnar www.pfs.is.

 

 

 

Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar,

 

Til baka