Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar

Tungumál EN
Heim
26. september 2011

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 26/2011 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar.  Með erindi, dags. 8. júní sl., óskaði Íslandspóstur eftir samþykki PFS á verðhækkun á einkaréttarpósti um 11,1%, vegna kostnaðarhækkana samfara kjarasamningi Íslandspósts og Póstmannafélags Íslands

Það er mat stofnunarinnar að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi til að stofnunin geti samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. PFS telur efni standa til þess að samþykkja allt að 7,8% hækkun gjaldskrár einkaréttarpósts til að mæta kostnaðarauka vegna kjarasamninga á grundvelli framlagðra gagna um kostnaðarþróun í einkaréttarþjónustu Íslandspósts. Í erindi Íslandspósts er þess getið að fyrirtækið hyggst hagræða í rekstri til að mæta hækkunarþörf vegna kjarasamninga. Hugsanlega kann því að verða til svigrúm fyrir fyrirtækið að mæta ekki kostnaðarhækkunum vegna kjarasamninga að fullu með hækkun gjaldskrár.

Burðargjald fyrir 50 gr. bréf fer úr 90 kr. í allt að 97 kr. með þeirri hækkun sem nú er heimiluð. Þrátt fyrir þessa hækkun eru burðargjöld hér á landi fyrir póst innan einkaréttar ennþá með þeim lægstu á Norðurlöndunum.

Nánari rökstuðningur fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri:

Ákvörðun PFS nr. 26/2011 - Erindi Íslandspósts hf., dags. 8. júní 2011, um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar (PDF skjal)

Til baka