Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um rekstrargjald Símans

Tungumál EN
Heim
4. febrúar 2011

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 28/2010 er varðar rekstrargjald Símans vegna tiltekinna tekna sem félagið hélt fram að mynduðu ekki stofn til rekstrargjalds. Síminn krafðist þess að Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) endurgreiddi félaginu rúmar 28 milljónir króna, auk vaxta og dráttarvaxta, vegna ofgreidds rekstrargjalds af tekjum sem að mati félagsins stöfuðu ekki af fjarskiptaþjónustu sem veitt væri „hér á landi“.

Í fyrsta lagi var um að ræða tekjur af reikiþjónustu erlendis, farsímaþjónustu sem viðskiptavinir Símans sem staddir eru erlendis nota. Fjarskiptanet erlendra fjarskiptafyrirtækja sem gert hafa reikisamning við Símann eru notuð til að veita þjónustuna. Síminn innheimtir fyrir símtalið og skilar viðeigandi tekjum til hins erlenda samningsaðila. Úrskurðarnefnd staðfesti þá niðurstöðu PFS að umrædd þjónusta myndaði stofn til rekstrargjalds þar sem viðskiptavinir Símans væru að notafæra sér þá fjarskiptaþjónustu sem félagið veitti þeim hér á landi.    

Í öðru lagi var um að ræða tekjur af svokallaðri „On-Waves“ þjónustu en það er farsímaþjónusta sem veitt er erlendis, um borð í skipum og fljótandi mannvirkjum. Síminn hélt því fram að umrædd þjónusta væri að mestu veitt í gegnum fjarskiptavirki annarra aðila, þ.e. búnað sem væri um borð í skipunum, sem og gervihnetti og línusambönd sem væru í rekstri og eigu annarra fjarskiptafyrirtækja. Úrskurðarnefnd staðfesti þá niðurstöðu PFS að umrædd þjónusta myndaði stofn til rekstrargjalds þar sem hún væri byggð á kóða sem PFS hefði úthlutað Símanum eftir íslenskum fjarskiptalögum, auk þess sem fjarskiptanet félagsins væri að hluta til notað við veitingu hennar.

Í þriðja lagi var um að ræða tekjur af svokallaðri „SMS heildsölu“ en það er þjónusta fyrir erlend fyrirtæki sem kaupa aðgang að SMS miðstöð Símans til að senda mikið magn SMS skilaboða, sem síðan enda í farsímum farsímanotenda um heim allan. Úrskurðarnefnd staðfesti þá niðurstöðu PFS að umrædd þjónusta myndaði stofn til rekstrargjalds þar sem Síminn væri að taka á móti, umflytja og senda mikið magn af SMS textaskilaboðum fyrir tiltekinn aðila með því að nýta sér hið innlenda fjarskiptanet sitt og reikisamninga við erlend fjarskiptafyrirtæki.

Til að unnt væri að ákvarða hver væri réttur gjaldstofn rekstrargjalds taldi nefndin nauðsynlegt að fyrir lægi túlkun á hugtakinu „fjarskiptastarfsemi“ í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Úrskurðarnefnd féllst á það með PFS að undir hugtakið heyrði bæði „fjarskiptaþjónusta“ og „rekstur fjarskiptanets", en ekki aðeins fjarskiptaþjónusta eins og Síminn hélt fram. Því taldi nefndin að rekstrargjald skyldi greiðast af öllum þeim tekjum sem til kæmu af veitingu fjarskiptaþjónustu Símans hér á landi og þeim tekjum sem stöfuðu frá rekstri þeirra fjarskiptaneta sem félagið starfrækti hér á landi og sett væru undir eftirlit PFS samkvæmt fjarskiptalögum.

Samkvæmt ofangreindu taldi úrskurðarnefnd því að túlka bæri orðasambandið „hér á landi“ í 4. mgr. 14. gr. ofangreindra laga í samræmi við lögsögu PFS, sbr. 1. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Sjá nánar: Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 7/2010 (PDF)

 

 

Til baka