Hoppa yfir valmynd

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli Mílu gegn PFS

Túngumál EN
Heim

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli Mílu gegn PFS

29. janúar 2010

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum nr. 4/2009 þann 15. janúar sl. úrskurðað í máli Mílu ehf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PFS).  Míla kærði ákvörðun PFS nr. 13/2009, frá 17. júlí 2009, um kostnaðargreiningu fyrir opinn aðgang að koparheimtaugum (markaður 11 í eldri tilmælum ESA).

Í hinni kærðu ákvörðun var niðurstaða PFS á þá leið að stofnunin samþykkti uppfærða kostnaðargreiningu Mílu frá júní 2009 með tilteknum breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. PFS ákvarðaði félaginu 6,18% hækkun á gjaldskrá.
Var það verulega minni hækkun en félagið hafði farið fram á.
Í kæru sinni fór Míla fram á að úrskurðarnefndin hafnaði forsendum PFS og heimilaði 42% hækkun á gjaldskrá fyrir heimtaugaleigu. 

Úrskurðarnefnd staðfesti með úrskurði sínum forsendur PFS í hinni kærðu ákvörðun, aðrar en þær sem varða að taka beri tillit til fjárbindingar í birgðum.

PFS hefur nú samþykkt uppfærða kostnaðargreiningu Mílu með þeirri breytingu sem mælt er fyrir um í ákvörðun úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Verð munu hækka um 0,45% frá núverandi verðum eða sem nemur 6,63% í stað 6,18% eins og PFS hafði áður  ákvarðað í júlí 2009.
Verð fyrir fullan aðgang að heimtaug skal vera 1.223 kr. á mánuði án vsk. Þar af skal grunnverð (neðra tíðnisvið) vera 920 kr. og verð fyrir skiptan aðgang (efra tíðnisvið) vera 303 kr.
Hin nýja verðskrá Mílu skal ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. mars 2010, enda tilkynni félagið leigutökum um verðskrárbreytinguna með a.m.k. 30 daga fyrirvara.

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 4/2009 (PDF)

 

Til baka