Hoppa yfir valmynd

Álit Póst- og fjarskiptastofnunar á því hvort skilmálar í ákveðnum tilboðum Nova á fjarskiptaþjónustu séu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga um sex mánaða hámarksbinditíma

Túngumál EN
Heim

Álit Póst- og fjarskiptastofnunar á því hvort skilmálar í ákveðnum tilboðum Nova á fjarskiptaþjónustu séu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga um sex mánaða hámarksbinditíma

12. júní 2008

Í ljósi markaðssetningar fyrirtækisins Nova undanfarnar vikur, þar sem fyrirtækið auglýsir m.a. símatilboð með 2000 kr. inneign/afslætti á notkun á mánuði í 12 mánuði og 3G internettilboð, ákvað Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að kanna, í samræmi við 4. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, hvort skilmálar í hlutaðeigandi tilboðum fyrirtækisins séu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 um sex mánaða hámarksbinditíma.

Með setningu laga nr. 39/2007, um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, voru samþykktar á Alþingi ýmsar breytingar á lögum um fjarskipti í þeim tilgangi m.a. að auka neytendavernd. Meðal annars var nýrri málsgrein, 2. mgr. 37. gr., bætt við 37. gr. laganna, er fjallar um viðskiptaskilmála áskrifenda fjarskiptaþjónustu á einstaklingsmarkaði. Málsgrein þessi kveður á um hámarksbinditíma sem heimilt er að semja um í samningi milli fjarskiptafyrirtækis og áskrifenda. Ákvæðið hljóðar svo:

Óheimilt er í samningi að kveða á um lengri binditíma áskrifenda en sex mánuði. Eftir þann tíma er áskrifanda heimilt að segja upp samningi með eins mánaðar fyrirvara. (...).

Eins og leiðir af orðalagi ákvæðisins er tilgangur ákvæðisins sá að fyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónustu bindi ekki áskrifendur sína í meira en 6 mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 39/2007, um breytingu á lögum um fjarskipti, segir að tilgangur þessa sé að liðka fyrir samkeppni og auka neytendavernd. Að mati PFS er mikilvægt að horfa til þessa tilgangs þegar tilboð á fjarskiptaþjónustu eru skoðuð.

Þau tilboð Nova sem hér um ræðir eru tvenns konar. Annars vegar símatilboð með 2000 kr. inneign/afslætti á notkun á mánuði í 12 mánuði, þ.e. kaup á símtæki hjá Nova sem hægt er að greiðsludreifa með jöfnum 2.000 kr. greiðslum á mánuði í 12 mánuði eða staðgreiða kr. 24.000. Í þessum tilboði felst jafnframt 2.000 kr. inneign í notkun á mánuði í 12 mánuði, sem samsvarar í raun 2.000 kr. afslætti á mánuði í áskrift (eða 2.000 kr. í inneign á mánuði í frelsi). Hins vegar er 3G internettilboð Nova sem felur í sér kaup á 3G pung fyrir kr. 19.900 sem fylgir internetáskrift í 12 mánuði frítt með, eða greiðslu á kr. 1.990 á mánuði í 12 mánuði og þá fylgir 1.990 kr. mánaðargjald í 12 mánuði frítt með.

Að framangreindu má vera ljóst að í raun er um að ræða tvo aðgreinda markaði, annars vegar markað fyrir sölu á tilteknum búnaði tengdum fjarskiptum, þ.e. GSM farsímum eða notendabúnaði til þess að tengjast internetinu, og hins vegar markað fyrir fjarskiptaþjónustu, þ.e. GSM þjónustu eða internetþjónustu fyrir einstaklinga. Er því ljóst að í þessum tilboðum felst í raun að viðskiptavinum Nova er boðinn afsláttur af vöru/þjónustu gegn því að þurfa í raun að kaupa aðra vöru/þjónustu af fyrirtækinu.

Í ljósi þess að notendum, sem velja að gerast áskrifendur að þjónustu Nova, er með framangreindum tilboðum veittur afsláttur af þjónustu fyrirtækisins fyrstu 12 mánuðina verður að telja að ákveðin bindiáhrif séu til staðar sem hvetja áskrifendur til þess að bindast lengur en 6 mánuði. Þessu til stuðnings má benda á þá staðreynd að áskrifendur missa umsamda 2.000 kr. inneign sína á mánuði ef þeir segja upp þjónustunni eftir 6 mánuði og innan 12 mánaða. Bindiáhrif tilboða af þessu tagi leiða hins vegar ekki, út af fyrir sig, til þess að tilboðin verði talin brjóta í bága við 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga. Verður því að skoða hvert mál fyrir sig og meta hvort þau bindiáhrif sem um ræðir séu þess eðlis að stríða gegn þeim sjónarmiðum sem búa að baki takmarkana á hámarksbinditíma samkvæmt 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalagi. Í þessu sambandi er því mikilvægt að í skilmálum þessháttar tilboða sé skýrlega kveðið á um að áskrifendur séu ekki bundnir lengur en í 6 mánuði og að þeim tíma liðnum geti þeir sagt upp þjónustunni sér að skaðlausu.

Í 2. mgr. 4. gr. viðskiptaskilmála Nova kemur fram að „sé um samning að ræða sem kveður á um binditíma í allt að 6 mánuði, þarf viðkomandi viðskiptavinur að greiða upp það sem eftir er af binditímanum, óski viðskiptavinur þess að segja samningi sínum upp áður en binditíma er lokið.“

Þá segir í 2. mgr. 10. gr. sömu skilmála „ef viðskiptavinur hefur greiðsludreift símtæki getur hann ýmist greitt eftirstöðvar eða haldið óbreyttum afborgunum ef til uppsagnar þjónustusamnings kemur.“

Að virtum framangreindum ákvæðum í viðskiptaskilmálum Nova, og í ljósi þess að fyrirtækið gerir ekki samninga við áskrifendur sem kveða á um lengri binditíma í 6 mánuði og að áskrifendum er gert kleift að segja upp þjónustusamningi sínum við Nova sér að skaðlausu, verður að telja að umrædd tilboð brjóti ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga.

Að þessu sögðu vill PFS þó taka fram að mikilvægt er að skoða hvert tilvik fyrir sig til að komast í raun um hvort það sé í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga, enda verða samningar og tilboð um fjarskiptaþjónustu að uppfylla ströng skilyrði til þess að teljast vera í fullu samræmi við framangreint ákvæði. Í þeim tilgangi að varna gegn bindingaráhrifum tilboða á fjarskiptaþjónustu verður til að mynda að gera þá kröfu til fjarskiptafyrirtækja að viðskiptavinir þeirra séu með skýrum og sannanlegum hætti upplýstir um skilmála og mögulega útgönguleið úr viðskiptunum að 6 mánaða binditíma liðnum og verður slík útgönguleið að vera viðskiptavinum að skaðlausu. Þá verður að gera kröfu um gagnsæi í slíkum samningum og tilboðum, þ.e. að fjarskiptafyrirtæki sem bjóða umrædd tilboð upplýsi notendur sína, með skýrum og sannanlegum hætti, hvert raunverulegt verð vörunnar er og hvert raunverulegt verð þjónustunnar er. Ekki má gera þá kröfu að notendur greiði upp eftirstöðvar símtækis/notendabúnaðar ef til uppsagna kemur að 6 mánuðum liðnum, heldur verður viðkomandi notandi að hafa val um það að halda óbreyttum afborgunum eða greiða upp eftirstöðvar. Auk framangreinds verður ávallt að hafa í huga tilgang 2. mgr. 37. gr., þ.e. að liðka fyrir samkeppni og auka neytendavernd. Stríði tilboð á fjarskiptaþjónustu að einhverju leyti gegn framangreindu getur það ekki talist samrýmast ákvæði 2. mgr. 37. gr. um 6 mánaða hámarksbinditíma.

Að öllu ofangreindu virtu beinir Póst- og fjarskiptastofnun þeim tilmælum til Nova og annarra fjarskiptafyrirtækja að tekið sé mið af framangreindum sjónarmiðum stofnunarinnar í þeim tilboðum sem fyrirtækin bjóða eða hyggjast bjóða notendum fjarskiptaþjónustu.

Að lokum skal það tekið fram að ofangreind umfjöllun Póst- og fjarskiptastofnunar er ekki tæmandi talning á sjónarmiðum og skilyrðum tengdum 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga heldur er hér aðeins um að ræða athugun á skilmálum í framangreindum tilboðum Nova og almenna umfjöllun sem ekki bindur stofnunina varðandi beitingu og túlkun ákvæðisins í einstökum ágreiningsmálum sem upp kunna að koma síðar.

Reykjavík, 11. júní 2008

Til baka