Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 5/2011 í kvörtunarmáli vegna óumbeðinna fjarskipta. Kvörtunin var tilkomin vegna tölvupósts sem kvartandi hafði fengið sendan í markaðslegum tilgangi á netfang sem honum hafði verið úthlutað í gegnum starf sitt.
Niðurstaða ákvörðunarinnar er sú að kvartandi getur ekki talist aðili að málinu fyrir stofnuninni þar sem ákvæði 1. mgr. 46. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti veitir aðeins áskrifanda tölvupóstþjónustu vernd fyrir óumbeðnum tölvupóstsendingum, en ekki notendum slíkrar þjónustu. Þar sem vinnuveitandi kvartanda var áskrifandi tölvupóstþjónustunnar í skilningi ákvæðisins hefði hann þurft að leggja fram kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna hinna óumbeðnu fjarskiptasendinga.
Tekið skal fram að þessi niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar kemur þó ekki í veg fyrir að vinnuveitandi sem áskrifandi að tölvupóstþjónustu geti gripið til viðeigandi úrræða til að stemma stigu við óumbeðnum fjarskiptum sem beint er að starfsmönnum.
Sjá ákvörðun PFS nr. 5/2011 varðandi óumbeðin fjarskipti (PDF skjal, trúnaðarupplýsingar fjarlægðar)
Til baka