Hoppa yfir valmynd

Vegna umfjöllunar um úttekt PFS á framkvæmd reglugerðar um reiki

Túngumál EN
Heim

Vegna umfjöllunar um úttekt PFS á framkvæmd reglugerðar um reiki

12. ágúst 2010

Á vefsíðu Neytendasamtakanna birtist nýlega niðurstaða úttektar samtakanna á framkvæmd fjarskiptafyrirtækjanna á reglugerðum Evrópuþingsins og -ráðsins um reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins. Um er að ræða reglugerð nr. 717/2007/EB, og reglugerð til breytingar á henni nr. 544/2009. Ber niðurstöðu Neytendasamtakanna ekki að öllu leyti saman við sambærilega úttekt sem Póst- og fjarskiptastofnun framkvæmdi fyrr í sumar. Af þessu tilefni vill Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) taka fram eftirfarandi:

  • Aurajöfnun.
    Þegar virðisaukaskattur (vsk.) hefur verið lagður ofan á verðþak Evrópugjaldskrárinnar námunda sum fjarskiptafyrirtæki upp í næstu heilu tölu, þ.e. í þeim tilvikum sem brot úr evru-senti (e. euro-cent = 1 hundraðasti af evru) stendur nær næsta heila evru-senti fyrir ofan en því fyrir neðan, sbr. almennar námundunarreglur. Leiðir þetta til þess að í sumum tilvikum fer hámarksverð án vsk. upp fyrir verðþakið sem tiltekið er í Evrópugjaldsskránni. Þetta getur numið nokkrum hundraðshlutum af evru-senti. Í slíkum tilvikum er um svo óverulega hækkun að ræða að venjubundnar sveiflur á gengi evru ráða mun meira um endanlegt verð til neytenda. Þá telur PFS að horfa verði til þess að aurajöfnun er almenn og rótgróin viðskiptavenja sem tíðkast hér á landi eins og í öðrum Evrópulöndum. Treystir PFS sér ekki til þess að slá því föstu, án frekari skoðunar, að slík framkvæmd brjóti í bága við umrædda reglugerð. Leiði ítarlegri skoðun á því í ljós að úrbóta sé þörf mun PFS koma því á framfæri við fjarskiptafyrirtækin.
  • Verðþak fyrir móttekin símtöl í smásölu þann 1. júlí 2010.
    Komið hefur í ljós að í spurningalista, sem PFS sendi fjarskiptafyrirtækjunum í tengslum við úttekt sína, var í spurningu um hámarksverð fyrir móttekin símtöl í smásölu frá og með 1. júlí 2010 vísað til eldra verðþaks, þ.e. 0,22 evra í stað nýja verðþaksins sem skyldi vera 0,15 evrur. Í ljósi þessarar meinlegu villu var ekki gerð athugasemd við það að Vodafone (og einnig Tal, sbr. hér að neðan) skyldi styðjast við hið ranga verðþak. Hefur tilmælum þegar verið beint til Vodafone að leiðrétta verðskrá sína til samræmis við gildandi verðþak.
  • Reikigjaldskrá Tals.
    Fjarskiptafyrirtækið Tal sem hefur endursölusamning við Vodafone hefur notað sama verð og Vodafone  í reikningum til viðskiptavina sinna. Þegar Vodafone hefur lagfært verð hjá sér, sbr. framangreint, mun verð Tals einnig leiðréttast samhliða. Upplýsingar á vefsíðu Tals um reikiverð, hafa ekki verið réttar og ekki í samræmi við þá framkvæmd sem um þetta hefur gilt hjá fyrirtækinu. Hefur þetta verið staðfest við PFS af hálfu Tals og mun fyrirtækið leiðrétta reikiverðskrá á heimasíðu sinni. 

Póst- og fjarskiptastofnun hefur uppfært úttekt sína á framkvæmd reikireglugerða nr. 717/2007/EB og nr. 544/2009/EB til samræmis við framangreint.

Sjá Úttekt PFS á framkvæmd reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum 12. ágúst 2010 (PDF)

 

 

Til baka