Hoppa yfir valmynd

PFS ákvarðar að fyrirtæki skuli lækka og jafna heildsöluverð á talsímamarkaði

Túngumál EN
Heim

PFS ákvarðar að fyrirtæki skuli lækka og jafna heildsöluverð á talsímamarkaði

14. desember 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú tvær ákvarðanir sínar í framhaldi af markaðsgreiningu þar sem mikilvæg skref eru stigin til að bæta hag neytenda á símamarkaði. Um er að ræða ákvarðanir varðandi talsímamarkað en fyrr á árinu birti stofnunin sambærilegar ákvarðanir varðandi farsímamarkað.

Fyrri ákvörðunin nr. 36/2012, varðar heildsölumarkaði fyrir upphaf og lúkningu símtala í talsímanetum (markaðir 2 og 3). Niðurstaða PFS varðandi heildsölumarkað fyrir upphaf símtala er sú að Síminn njóti ennþá umtalsverðs markaðsstyrks á þeim markaði. Því eru lagðar kvaðir á félagið, sú helsta að í stað þess að byggja heildsöluverð fyrir upphaf símtala í talsímaneti sínu á eigin kostnaðargreiningu eins og áður skal Síminn miða heildsöluverð sitt við ríki á EES-svæðinu sem beita tiltekinni kostnaðargreiningaraðferð.

Varðandi heildsöluverð fyrir að ljúka símtölum í eigin talsímanetum leggur PFS kvaðir á fimm fyritæki sem eru útnefnd með umtalsverðan styrk á þeim markaði. Með kvöðunum hverfur ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á talsímaþjónustu, þ.e. þegar hringt er í annað talsímafélag en viðkomandi er í viðskiptum við.  Félögin sem um ræðir eru Síminn, Vodafone, Nova, Símafélagið og Hringdu.

Með ákvörðun PFS skulu hámarks lúkningarverð allra fyrirtækjanna verða þau sömu frá og með 1. mars nk., eða 0,63 kr./mín. auk 0,62 kr. tengigjalds fyrir hvert símtal. Þess má geta að frá 4. desember sl. hafa Síminn og Vodafone verið með þetta lúkningaverð og því þurfa þau ekki að gera breytingar í framhaldi af þessari ákvörðun. Verðin munu síðan ráðast af árlegum verðsamanburði PFS við ríki innan EES-svæðisins.

Ákvörðun þessi kemur í kjölfar ákvarðana PFS nr. 3/2012 og nr. 32/2012 þar sem verð vegna lúkningar í farsímanetum hafa verið lækkuð og jöfnuð. Þann 1. júlí nk. munu lúkningarverð í farsíma nema 1,66 kr. Verulega hefur því dregið úr verðmun á lúkningu símtala í talsíma- og farsímanetum, því hæstu verð fyrir lúkningu símtala í farsíma hafa til langs tíma numið um 12 kr./mín. Ákvarðanir þessar munu því einnig nýtast þeim sem hringja á milli farsíma- og talsímakerfa, ef umræddar aðgerðir PFS á heildsölumörkuðum skila sér yfir á smásölumarkaði.

Seinni ákvörðunin, nr. 37/2012 varðar heildsölumarkað fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 skv. eldri tilmælum ESA).
Kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að þar ríki nú virk samkeppni og leggur því ekki kvaðir á fyrirtæki á þeim markaði.

Sjá nánari upplýsingar og ákvarðanirnar sjálfar undir markaðsgreiningu hér á vefnum.

 

 

Til baka