Hoppa yfir valmynd

Norrænn samanburður á fjarskiptanotkun 2010

Tungumál EN
Heim
6. júlí 2011

 

Útbreiðsla fastra nettenginga með miklum afköstum mest á Íslandi sem og vöxtur í gagnaflutningum yfir farsímanet.  Farsímaþjónusta með minnsta útbreiðslu og Íslendingar senda fæst SMS.


Nú hafa eftirlitsstofnanir á Norðurlöndunum tekið saman skýrslu um samanburð á notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu í löndunum fimm og þróun nýliðinna ára.  Er þetta í annað sinn sem samantektarskýrsla sem þessi hefur verið gerð. Í skýrslunni kemur margt forvitnilegt fram.


Sítengd internetþjónusta er um margt sambærileg á milli landanna en það vekur þó athygli að tengingar með yfir 10Mbps afköstum eru útbreiddastar á Íslandi þó svo tengingar um ljósleiðara séu ekki teknar með í reikninginn.


Þrátt fyrir að Íslendingar noti farsímanetin minnst til gagnaflutnings og séu ekki hálfdrættingar á við Svía og Finna, með um 1,5 GB á ári á hvern notanda á móti yfir 4 GB Svía og Finna, er vöxtur á gagnamagni fluttu yfir farsímanet  mestur hér á landi.  Ef þessi þróun er borin saman við notkun fyrri ára í Svíþjóð og Finnlandi má leiða að því líkur að Ísland sé um tveimur árum á eftir þeim löndum. Því megi mögulega búast við að notkun gagnaflutninga yfir farsímanet geti nærri þrefaldast hér á landi á næstu tveimur árum.


Útbreiðsla farsíma á Norðurlöndunum er minnst á Íslandi en meðalnotkun þeirra er sambærileg, eða um 2000 mínútur á ári á hvern notanda.  Danir tala minnst Norðurlandaþjóðanna í farsíma eða ríflega 1500 mínútur að meðaltali en meðallengd símtals í farsíma er hins vegar minnst á Íslandi.


Íslendingar senda einnig minnst af SMS skeytum, eða um 500 á ári á hvern notanda á meðan Danir tróna á toppnum með nærri 2000 skeyti á ári.


Fjöldi viðskiptavina í fastlínuþjónustu heldur áfram að minnka í öllum löndunum fimm, en þó er minnsta fækkunin milli áranna 2009 og 2010 á Íslandi, líkt og verið hefur síðastliðin ár.


Þrátt fyrir að sjá megi mun á notkun og þróun einstakra gerða fjarskipta milli landanna sýnir samanburðurinn þó að á heildina litið eru löndin mjög lík hvert öðru í notkun sinni og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta.

Skýrslan (PDF)

Til baka