Hoppa yfir valmynd

PFS vekur athygli á reglum um CE merkingar í framhaldi af dómi Héraðsdóms Reykjaness

Tungumál EN
Heim

PFS vekur athygli á reglum um CE merkingar í framhaldi af dómi Héraðsdóms Reykjaness

20. nóvember 2015

Í gær, 19. nóvember, var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness þar sem einstaklingur var dæmdur til sektargreiðslu m.a. vegna innflutnings á spjaldtölvum frá Bandaríkjunum, sem ekki höfðu áskildar CE merkingar.

Í framhaldi af þessu vill Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vekja athygli á því að ekki er leyfilegt að flytja til landsins fjarskiptatæki sem ekki hafa CE merkingu samkvæmt reglum og stöðlum á evrópska efnahagssvæðinu.

Algengt er að leitað sé til stofnunarinnar vegna þess að fólk hefur keypt slík tæki erlendis eða á netinu og fengið send hingað til lands, án þess að fullvissa sig um að viðkomandi tæki séu CE merkt. Tollyfirvöldum er skylt að stöðva slíkar sendingar verði þau þeirra vör og PFS hefur ekki vald til að veita undanþágur frá þeim lögum og reglugerð sem um innflutning fjarskiptatækja gilda.

Sem dæmi um innflutning af þessu tagi má nefna DECT 6.0 síma sem hafa verið fluttir inn frá Bandaríkjunum og eru í notkun hér á landi. Símar af því tagi sem ekki eru sérstaklega framleiddir fyrir evrópskan markað hafa ekki CE merkingu og rekast á við evrópskt tíðniskipulag og þær tíðnir sem notaðar eru fyrir farsíma á EES-svæðinu. Talsvert hefur borið á  truflunum í farnetskerfum síma- og netþjónustufyrirtækja hér á landi af völdum DECT síma sem fluttir hafa verið inn frá Bandaríkjunum.

Þess má geta að Evrópusambandið hefur samþykkt nýja tilskipun um CE merkingar þar sem eftirlit og viðurlög eru hert frá því sem nú er.  Aðildarríki sambandsins hafa frest fram á fyrri hluta næsta árs til að aðlaga regluverk sitt að tilskipuninni. Eftir að hún hefur verið tekin inn í EES samninginn verða ákvæði tilskipunarinnar innleidd í lög og reglur hér á landi.

Sjá nánar um kaup á tækjum og CE merkingar hér á vefnum

Sjá einnig gildandi reglugerð nr. 90/2007 um þráðlausan búnað og notendabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra.

CE merkið

 CE merkið þarf að vera á öllum fjarskiptatækjum sem flutt eru til Íslands

 

 

 

 

Til baka