Hoppa yfir valmynd

Staða nethlutleysis á Íslandi - niðurstöður úttektar PFS

Tungumál EN
Heim
4. apríl 2016

Við þróun löggjafar í evrópskum fjarskiptarétti undanfarin ár hefur mótast regla um nethlutleysi (e. Net Neutrality). Um er að ræða meginreglu sem felur í sér að öll rafræn samskipti á fjarskiptamarkaðinum skulu vera meðhöndluð á jafnan hátt, sem leiðir til þess að aðgangur á netinu er tryggður með því að vera öllum opinn og greiður. Velgengi Internetsins frá upphafi má rekja til þess að það hefur alla tíð verið vettvangur óheftra boðskipta.

Meginmarkmið reglunnar um nethlutleysi er að flytja skuli öll rafræn samskipti óháð efnisinnihaldi, hugbúnaði, notkunareiginleikum, þjónustu, búnaði, upprunavistfangi eða móttökuvistfangi. Hún á að tryggja að Internetið haldi áfram að vera vettvangur óheftra boðskipta, nýsköpunar og viðskipta eftir bestu getu (e. best effort), sem felur í sér að tryggt sé eftir bestu getu að fjarskiptanetið geti annað öllum gagnaflutningi.

Í ljósi nýlegra reglna um nethlutleysi sem settar voru í evrópskri fjarskiptalöggjöf, sbr. hina svokölluðu TSM reglugerð nr. 2015/2120, taldi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vera tilefni til að gera úttekt á framkvæmd nethlutleysis hér á landi. Markmið úttektarinnar var að fá yfirsýn yfir stöðu mála og fá samanburð milli fjarskiptafyrirtækja um framkvæmdina í aðdraganda væntanlegrar innleiðingar tilskipunarinnar hér á landi.

Mikilvægur þáttur í hlutverki PFS er að fylgjast náið með fjarskiptamarkaðinum með það að markmiði að koma í veg fyrir hvers konar röskun eða takmörkun á fjarskiptum. Á síðustu árum hefur áherslan á viðhald og vernd nethlutleysis á Internetinu aukist talsvert bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og fyrrnefnd regla um nethlutleysi hefur verið stöðugt í þróun síðan hún varð fyrst hluti af evrópsku fjarskiptaregluverki árið 2009.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru almennt jákvæðar, þótt ekki sé tilefni til að draga afgerandi ályktanir um framkvæmd á einstökum ráðstöfunum fjarskiptafyrirtækja (umferðarstýringum). Til dæmis virðist hægt að draga eftirfarandi ályktanir:

  • Almennt er ekki verið að beita umferðarstýringum með það að markmiði að hafa áhrif á eða takmarka efni eða þjónustur á internetinu, t.d. með því að takmarka hraða eða útiloka skráarskiptaþjónustur eða aðrar þjónustur á Internetinu.
  • Fjarskiptaumferð er ekki skilyrt m.t.t. hvaða endabúnað er verið að nota. Á þetta bæði við í fastanetum og í farnetum.
  • Þegar nauðsynlegt er að beita umferðarstýringum vegna eðlis áskriftar, t.d. um hámarks gagnamagn, er getið um slíkt í skilmálum viðskiptasamnings við áskrifandann.
  • Fjarskiptafyrirtækin virðast leggja þröngan skilning í hvað séu ómældar niðurhalsþjónustur (e. zero rating). Túlkun hugtaksins mun skýrast við framkvæmd reglna um nethlutleysi og í ljósi leiðbeininga sem samtök fjarskiptaeftirlitsstofnana í Evrópu (BEREC) vinna nú að.
  • Óskýr skipting ábyrgðar milli netrekenda og sýndarnetsaðila um beitingu umferðarstýringa og upplýsingagjöf til PFS þar að lútandi.

 Sjá skýrslu PFS í heild:

Nethlutleysi - Skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar vegna úttektar á netmismunun og forgangsstýringum á íslenskum farnetsmarkaði.

 

 

 

 

Til baka