Hoppa yfir valmynd

Aukasamráð vegna markaðsgreininga á mörkuðum 8 - 10

Túngumál EN
Heim

Aukasamráð vegna markaðsgreininga á mörkuðum 8 - 10

26. september 2008

Bréf  vegna aukasamráðs um markað 8 - 10

Til fjarskiptafyrirtækja - 26. september 2008

Málefni:  Aukasamráð vegna markaðsgreininga á heildsölumörkuðum fyrir aðgang, lúkningu og flutning símatala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 8-10)                                                              

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur með vísan til 17. gr. laga nr. 81/2003, ásamt síðari breytingum, greint heildsölumarkaði fyrir aðgang, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 8-10). Með bréfi, dags. 31. mars s.l., voru drög að greiningu á mörkuðum 8, 9 og 10 send til fjarskiptafyrirtækja og þeim boðið að gera athugasemdir við markaðsgreininguna og niðurstöðurnar og var frestur veittur til 13. maí s.l. Eftirfarandi aðilar sendu inn athugasemdir við frumdrögin: Samkeppniseftirlitið, Og fjarskipti ehf. (Vodafone) og Síminn hf.

Niðurstaða frumgreiningar PFS á umræddum mörkuðum var á þá leið að stofnunin hefði í hyggju að útnefna Símann eitt fyrirtækja sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumörkuðum 8 (aðgangur) og 10 (flutningur). Á markaði 9 (lúkning) hefði PFS í hyggju að útnefna öll starfandi fjarskiptafyrirtæki sem ráku talsímanet sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, þ.e. Síminn, Vodafone og IP-fjarskipti ehf. (þá Hive).

Í ljós hefur komið að IP-fjarskipti ehf. (nú Tal) hefur selt fjarskiptakerfi sín til Vodafone, sbr. samning milli aðila, dags. 11. apríl s.l. Fyrirtækið IP-fjarskipti rekur því ekki lengur talsímakerfi og því er ljóst að ekki ber að útnefna félagið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á lúkningarmarkaði fyrir símtöl í föstum almennum talsímanetum (markaður 9). Því eru aðeins tvö fyrirtæki starfandi á viðkomandi markaði, þ.e. Síminn og Vodafone. Drög að markaðsgreiningu á mörkuðum 8-10 hafa því verið uppfærð með tilliti til þessa.

Það var einnig niðurstaða frumgreiningar PFS á heildsölumarkaði fyrir flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 10) að Síminn væri eitt fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði. Miðað við þau gögn sem PFS hafði undir höndum byggði stofnunin á því að Síminn væri nánast með 100% markaðshlutdeild á viðkomandi markaði en aðrir með nánast enga markaðshlutdeild. Síminn gerði athugasemdir við þessar forsendur og taldi að Vodafone starfaði á viðkomandi markaði. Eftir nánari gagnaöflun og eftirgrennslan hefur komið í ljós að Vodafone starfar á umræddum flutningsmarkaði eins og hann er skilgreindur af hálfu PFS og hefur þar töluverða markaðshlutdeild. Markaðshlutdeild Símans er þó ennþá mikil ásamt því sem önnur atriði en markaðshlutdeild styðja eindregið þá niðurstöðu að félagið sé eitt fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Nærtækast er að nefna stærð og útbreiðslu talsímakerfis Símans og mikinn styrk félagsins á öðrum skyldum fastlínumörkuðum, t.d. heildsölumarkaði fyrir aðgang að símtölum í föstum almennum talsímanetum og talsímamörkuðum í smásölu. PFS ákvað engu að síður að meta hvort fyrir hendi væru aðstæður á viðkomandi markaði sem bentu til sameiginlegra markaðsyfirráða Símans og Vodafone en komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Drög að markaðsgreiningu á mörkuðum 8-10 hafa verið uppfærð með tilliti til þessara breyttu forsendna.

Eins og að ofan greinir hefur PFS gert breytingar á frumdrögum þeim sem send voru í samráð þann 31. mars s.l. vegna þessara breyttu aðstæðna. PFS telur því eðlilegt að markaðsaðilar fái að tjá sig um þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumdrögunum og stafa annars vegar af því að talsímakerfisrekendum á heildsölustigi hefur fækkað um einn og hins vegar af því að Síminn hefur ekki 100% markaðshlutdeild á heildsölumarkaði fyrir flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaður 10) eins og PFS byggði á í frumdrögunum. Þeim athugasemdum sem hagsmunaaðilar skiluðu í kjölfar upprunalegs samráðs í maí s.l., og hafa ekki að mati PFS leitt til breytinga á niðurstöðum markaðsgreiningarinnar, verður svarað í sérstökum viðauka sem sendur verður til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) með drögum að lokaákvörðun og uppfærðri markaðsgreiningu þegar aukasamráðið er um garð gengið. Því er óþarft fyrir hagsmunaaðila að endurtaka þær athugasemdir sem áður hafa borist PFS og varða atriði sem ekki hafa leitt til breytinga á frumdrögunum.

Vakin er athygli á því að PFS áætlar að birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og þá mun stofnunin leggja mat á þá beiðni. Þegar athugasemdir hafa borist mun PFS endurskoða drögin með hliðsjón af þeim og útbúa drög að ákvörðun sem send verður ESA til samráðs þegar þau hafa verið þýdd yfir á ensku ásamt greiningunum og svörum við innanlandssamráðunum, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003. Geri ESA ekki athugasemdir við markaðsgreiningar og niðurstöður PFS verða ákvarðanirnar birtar hlutaðeigandi fyrirtækjum. 

Frestur til að skila athugasemdum rennur út föstudaginn 17. október n.k.
Þessi tiltölulega stutti frestur helgast fyrst og fremst að þeirri staðreynd að aukasamráð þetta varðar breytingar á fremur skýrt afmörkuðum þáttum frumgreiningarinnar. Frekari frestur verður ekki veittur.

Nánari upplýsingar um markaðsgreiningar veita starfsmenn PFS Óskar Hafliði Ragnarsson, s:510-1523, netfang: oskarh@pfs.is og Guðmann Bragi Birgisson, s:510-1504, netfang: gudmann.birgisson@pfs.is. Upplýsingar um markaðsgreiningu PFS er einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar www.pfs.is.

Samráðsskjal vegna aukasamráðs um markaði 8 - 10 (PDF)

Fyrra samráð - Bréf til fjarskiptafyrirtækja og samráðsskjal (31. mars 2008)

Nánar um markaðsgreiningu á vef PFS

Til baka