Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS um lækkun lúkningarverðs bætir hag neytenda á farsímamarkaði

Tungumál EN
Heim
31. október 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 25/2013 varðandi verðsamanburð á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Mælt er fyrir um að niðurstaða verðsamanburðarins skuli verða grundvöllur hámarks lúkningarverðs Símans, Vodafone, Nova, IMC og Tals á árinu 2014, í stað kostnaðargreiningar Símans sem PFS samþykkti árið 2010. Þau verð sem umrædd kostnaðargreining Símans leiddi í ljós, 4. kr./mín, skulu gilda út árið 2013. Samkvæmt framangreindum verðsamanburði skal hámarksverðið lækka í 1,64 kr./mín um næstu áramót.

Þess má geta að umrædd ákvörðun er sú sjötta sem PFS tekur á viðkomandi markaði frá árinu 2006. Þegar PFS hóf umrætt lækkunarferli á því ári námu hæstu lúkningarverð 15 kr./mín. Með ákvörðuninni telur PFS að mikilvægum áfanga sé náð varðandi jöfnun og lækkun lúkningarverða á íslenskum farsímamarkaði sem ættu að koma neytendum til góða.

Ákvörðunin er nánari útfærsla á ákvörðun PFS nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7). Þær breytingar sem ákvarðanirnar hafa í för með sér leiða til þess að ein meginforsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu verður ekki lengur til staðar, þ.e. þegar hringt er í annað farsímafélag en viðkomandi er í viðskiptum við. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á þessum markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á því neti. Flest samkeppnisvandamálin hafa tengst lúkningarverði og að mati PFS hefur í sumum tilvikum átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum hefur verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- eða talsímanetum. Með umræddum ákvörðunum ætti að sjá fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli.

Í framangreindri ákvörðun PFS nr. 3/2012 var kveðið á um að PFS myndi á gildistíma ákvörðunarinnar framkvæma umræddan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, sem myndi vera grundvöllur hámarks lúkningarverðs íslenskra farsímafyrirtækja. Með ákvörðun PFS nr. 32/2012 frá 1. nóvember 2012 framkvæmdi PFS umræddan verðsamanburð í fyrsta sinn. Þar kom fram að lúkningarverð skyldu lækkuð úr 4. kr./mín í 1,66 kr./mín frá og með 1. júlí 2013 út það ár.

Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2012 frá 30. júní sl. ógilti nefndin þann hluta ákvörðunar PFS er snéri að gildistökunni þann 1. júlí 2013 og lagði fyrir PFS að taka nýja ákvörðun haustið 2013 sem mæla myndi fyrir um hámarks lúkningarverð á árinu 2014. Nefndin taldi að sú aðferðarfræði að beita verðsamanburði við ríki á EES-svæðinu væri forsvaranleg en taldi að ekki hefðu verið nægilega mörg lönd búin að innleiða viðeigandi aðferðarfræði þegar PFS framkvæmdi verðsamanburðinn haustið 2012 en þau voru 7 talsins.

Sú ákvörðun sem kveðin var upp í dag byggir á verðsamanburði við 14 EES-ríki þar sem niðurstaða um lúkningarverð samkvæmt viðeigandi aðferðarfræði lá fyrir þann 1. júlí sl. Eitt ríki bættist síðan við í lok september en það er ekki tekið með útreikninginn. Þá hafa 4 ríki til viðbótar beitt verðsamanburði líkt og PFS hyggst gera hér. Samtals eru ríkin því 19 fyrir utan Ísland. Nokkur ríki til viðbótar hafa auk þess tilkynnt um að þau hyggist byggja verð sín á umræddri aðferðarfræði á næstu mánuðum.

Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkaða fjarskipta um mitt næsta ár.

Sjá ákvörðunina í heild ásamt viðaukum:

  • Ákvörðun nr. 25/2013 um verðsamanburð á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF)
    • Viðauki A – Yfirlit yfir lúkningarverð - sjá aftast í ákvörðunarskjalinu
    • Viðauki B – Gengistafla - sjá aftast í ákvörðunarskjalinu
    • Viðauki C við ákvörðun 25/2013 – Álit ESA (PDF)

 

Til baka