Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Markaðir 4 og 5 - Ákvörðun 21/2014

 13. ágúst 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 21/2014 er lýtur að markaðsgreiningum á heimtauga- og breiðbandsmörkuðum. Annars vegar er um að ræða markað fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (markaður 4) og hins vegar fyrir breiðbandsaðgang í heildsölu (markaður 5).

Niðurstaða PFS er sú að stofnunin hyggst viðhalda útnefningu Mílu, sbr. ákvörðun stofnunarinnar nr. 26/2007, sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heimtaugamarkaði (markaður 4) og leggja viðeigandi kvaða á félagið. Auk þess að viðhalda tilteknum kvöðum á Mílu leggur stofnunin frekari kvaðir á félagið sem greiða eiga fyrir aukinni samkeppni á viðkomandi markaði. Þrátt fyrir innkomu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og fleiri staðbundinna netrekenda er markaðshlutdeild Mílu enn um 83% og eru enn verulegar aðgangshindranir ríkjandi á viðkomandi markaði að mati PFS. Þá hyggst PFS útnefna Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir breiðbandsaðgang í heildsölu (markaður 5) og leggja viðeigandi kvaðir á félagið til að efla samkeppni. Með ákvörðun PFS nr. 8/2008 var Síminn hf. útnefndur sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Í kjölfar sáttar móðurfélags Símans og Mílu, Skipta, og Samkeppniseftirlitsins árið 2013 fluttist sú breiðbandsstarfsemi samstæðunnar frá Símanum til Mílu. Míla hefur langstærstu markaðshlutdeildina á viðkomandi heildsölumarkaði, en félagið er með um 76% markaðshlutdeild þegar innri sala er ekki talin með.

Markaður 4 nær yfir aðgang að kopar- og ljósleiðaraheimtaugum, bæði skiptan og óskiptan aðgang. Markaðurinn nær því yfir áþreifanlega innviði fjarskiptanetanna; heimtaugarnar sjálfar, tengivirki, magnara o.fl. Á heimtaugarnar er hægt að bæta við ýmsum tæknilegum kerfum þar sem hin eiginlega þjónustuframleiðsla fer fram. Sú þjónusta krefst þess að endanotendur geti bæði sent og móttekið gögn. Þessa þjónustu sem fer fram á netinu, t.d. internetið, tölvupóstur, sjónvarpsdreifing (IPTV) og fleira, er síðan öðru fremur fjallað um á markaði 5. Ekki er nægilegt að hafa aðgang að heimtaug til að koma á breiðbandsþjónustu. Að sama skapi er nauðsynlegt að hafa aðgang að einhvers konar fjarskiptainnviðum til að koma á breiðbandsþjónustu. Þess vegna eru þessir markaðir háðir hvor öðrum og greindir saman.

PFS hyggst, eins og að ofan greinir, leggja viðeigandi kvaðir á Mílu á viðkomandi mörkuðum til að efla samkeppni í fjarskiptum. Um er að ræða aðgangskvöð, jafnræðiskvöð, gagnsæiskvöð, kvöð um bókhaldslegan aðskilnað, kvöð um eftirlit með gjaldskrá og kvöð um færslu kostnaðarbókhalds.

Helstu breytingar frá fyrri greiningum felast í því að nú ná greiningarnar og kvaðirnar bæði yfir kopar- og ljósleiðaranet Mílu en þær náðu aðeins yfir koparnet Mílu fram til þessa. Hins vegar hyggst PFS ekki leggja verðkvöð á ljósleiðaraþjónustu Mílu uppfylli félagið tiltekin skilyrði þar að lútandi. Skilyrðin felast m.a. í mun strangari jafnræðiskvöð en áður og varnöglum um að samkeppnisaðilum Skiptasamstæðunnar (Míla og Síminn) sé mögulegt að leika þjónustuframboð samstæðunnar eftir, tæknilega og efnahagslega, með sjálfbærum hætti á eðlilegum samkeppnislegum forsendum. Uppfylli Míla ekki þessi skilyrði áskilur PFS sér heimild til að leggja verðkvöð á félagið varðandi þessa þjónustu. 

Drög að ofangreindri ákvörðun voru send til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun þann 11. júlí sl. ESA gerði athugasemdir í fjórum liðum við drögin, sem sjá má í viðauka C með ákvörðuninni, en heimilaði PFS engu að síður að taka umrædda ákvörðun.

Með greiningu á umræddum mörkuðum lýkur annarri umferð markaðsgreininga af hálfu PFS, að öðru leyti en því að heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (eldri markaður 14) er eftir og stefnir PFS að innanlandssamráði um ákvörðunardrög á þeim markaði á næstu vikum. Búast má við endanlegri ákvörðun á þeim markaði fyrir árslok.

Ákvörðunin ásamt viðaukum á íslensku og ensku: (PDF skjöl)

Ákvörðun PFS nr. 21/2014 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum heimtauga (M4)  og bitastraums (M5).

Viðauki A - Markaðsgreining á heildsölumörkuðum heimtauga (M4)  og bitastraums (M5).
Viðauki B1 - Niðurstöður úr innanlandssamráði
Viðauki B2 - Aukasamsráðsskjal
Viðauki B3 - Niðurstöður aukasamráðs
Viðauki C - Álit ESA


Decision no. 21/2014 on designation of SMP status and obligations on the wholesale markets of access to infrastructure (M4) and bitstream (M5)

Appendix A - Market analysis on the wholesale markets of access to infrastructure (M4) and bitstream (M5)
Appendix B1 - Results of national consultation
Appendix B2 - Additional consultation
Appendix B3 - Results of the addiational consultation
Appendix C - ESA´s comments

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?