Hoppa yfir valmynd
Túngumál EN
Heim

M7 - Ákvörðun 32/2012

1. nóvember 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína varðandi heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7).

Þær breytingar sem kveðið er á um í ákvörðuninni leiða til þess að ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu verður ekki lengur til staðar, þ.e. þegar hringt er í annað farsímafélag en viðkomandi er í viðskiptum við. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á þessum markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur, er með einokunarstöðu á því neti. Flest samkeppnisvandamálin hafa tengst lúkningarverði og að mati PFS hefur í sumum tilvikum átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum hefur verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- eða talsímanetum. Með ákvörðuninni nú og ákvörðun PFS nr. 3/2012 frá 13. janúar sl. sér nú fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli.

Í dag eru lúkningarverð farsímafélaganna með þeim hætti að hámarksverð Símans og Vodafone er 4,5 kr./mín, Tals 5,5 kr./mín og Nova og IMC/Alterna 6,3 kr./mín. Samkvæmt ákvörðun PFS nr. 32/2012, sem birt er í dag, verða lúkningarverð allra fyrirtækjanna jöfnuð þann 1. janúar nk. í 4 kr./mín. Þann 1. júlí nk. lækkar verðið svo í 1,66 kr./mín. Með ákvörðuninni telur PFS að mikilvægum áfanga sé náð varðandi jöfnun og lækkun lúkningarverða á íslenskum farsímamarkaði, sem ættu að koma neytendum til góða.
Þess má geta að umrædd ákvörðun er sú fjórða sem PFS tekur á viðkomandi markaði frá árinu 2006. Þegar PFS hóf umrætt lækkunarferli á því ári námu hæstu lúkningarverð 15 kr./mín.

Ákvörðunin byggir á ákvörðun PFS nr. 3/2012 frá því í janúar sl. þar sem viðkomandi markaður var greindur. Í þeirri ákvörðun komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn, Vodafone, Nova, Tal og IMC/Alterna væru með umtalsverðan markaðsstyrk á lúkningu símtala í eigin farsímanetum. Viðeigandi kvaðir voru lagðar á félögin, m.a. kvöð um eftirlit með gjaldskrá. Í ákvörðun 3/2012 kom ennfremur fram að PFS myndi framkvæma verðsamanburð á viðkomandi markaði, m.t.t. lúkningarverða á EES-svæðinu, eigi síðar en 1. nóvember 2012. Sá verðsamanburður myndi síðan verða grundvöllur hámarks lúkningarverðs íslenskra farsímafyrirtækja frá og með 1. janúar 2013. PFS skyldi síðan framkvæma slíkan verðsamanburð árlega fyrir umrædd tímamörk vegna lúkningargjalda næsta árs á eftir.

Í ágúst sl. efndi PFS til innanlandssamráðs um drög að ofangreindum verðsamanburði. Í kjölfar þess samráðs ákvað stofnunin að fresta innleiðingu hins nýja verðs í 1,66 kr./mín. um hálft ár eða til 1. júlí 2013. Þetta var gert til að koma að nokkru leyti til móts við athugasemdir farsímafyrirtækjanna. Í lok september sl. voru hin uppfærðu drög send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til samráðs. Með bréfi, dags. 26. október sl., bárust athugasemdir ESA. ESA tók fram að þó svo að umrædd frestun væri ekki í fullu samræmi við tilmæli ESA frá 2011 um lúkningarverð, sem kváðu m.a. á um að verð skyldu lækkuð í kostnaðargreind verð eigi síðar en 1. janúar 2013, væri í þessu tilviki unnt að gefa PFS smávægilegt svigrúm til frestunar umræddrar lækkunar. Væri þá horft til þess að um frekari frestun yrði ekki að ræða.

Þar sem markaðsgreiningar eru viðvarandi verkefni PFS má búast við fleiri ákvörðunum stofnunarinnar á næstu misserum í framhaldi af greiningu annarra hluta fjarskiptamarkaðarins. PFS stefnir að því að ljúka annarri umferð greininga allra undirmarkaða fjarskipta á fyrri hluta næsta árs.

Sjá ákvörðun PFS nr. 32/2012 í heild ásamt viðaukum:
  • Ákvörðun nr. 32/2012 um heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7)(PDF)
  • Viðauki A – Heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF)
  • Viðauki B – Niðurstöður úr samráði PFS um frumdrög að heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) (PDF)
  • Viðauki C – Álit ESA

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?