Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

M 1- 6 - Ákvörðun 30/2008

 5. desember 2008

Póst- og fjarskiptastofnun hefur lokið markaðsgreiningu á mörkuðum 1 - 6 og birt ákvörðun sína nr. 30/2008 þar sem Síminn hf. er útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á þessum mörkuðum og viðeigandi kvaðir lagðar á fyrirtækið.


Markaðir 1 - 6 eru:
 • Smásölumarkaður fyrir aðgang að almennu talsímaneti fyrir heimili (markaður 1)
 • Smásölumarkaður fyrir aðgang að almennu talsímaneti fyrir fyrirtæki (markaður 2)
 • Smásölumarkaður fyrir almenna innanlands talsímaþjónustu á fastaneti fyrir heimili (markaður 3)
 • Smásölumarkaður fyrir almenna millilanda talsímaþjónustu á fastaneti fyrir heimili (markaður 4)
 • Smásölumarkaður fyrir almenna innanlands talsímaþjónustu á fastaneti fyrir fyrirtæki (markaður 5)
 • Smásölumarkaður fyrir almenna millilanda talsímaþjónustu á fastaneti fyrir fyrirtæki (markaður 6)

PFS hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. sé með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum sex mörkuðunum 1, 2, 3, 4, 5 og 6 og hefur útnefnt félagið með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim. PFS hyggst leggja eftirfarandi heildsölukvaðir á Símann á mörkuðum 1 og 2:
 • Kvöð um forval og fast forval
 • Kvöð um aðgang að fastasímneti og þjónustu á heildsölustigi. Síminn skal bjóða upp á lausn þar sem þjónustuveitendur með fast forval geta gert viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning (e. single billing) fyrir bæði aðgengi og símnotkun. Hér gæti verið um að ræða heildarlausn á línuleigu eða aðra sambærilega lausn.
 • Kvöð um jafnræði
 • Kvöð um gagnsæi og birtingu viðmiðunartilboðs
 • Kvöð um bókhaldslegan aðskilnað
 • Kvöð um eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhald

PFS mun að svo stöddu ekki leggja smásölukvaðir á Símann á viðkomandi smásölumörkuðum, þrátt fyrir að hafa útnefnt fyrirtækið með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi mörkuðum. PFS telur að almennt skuli leggja áherslu á að leysa samkeppnisvandamál á heildsölustigi, en skv. 2. mgr. 27. gr. fjarskiptalaga er PFS einungis heimilt að beita smásölukvöðum í kjölfar markaðsgreiningar ef stofnunin telur að heildsölukvaðir eða ráðstafanir varðandi forval eða fast forval muni ekki skila árangri við að efla virka samkeppni og tryggja hagsmuni notenda.

PFS telur að þær heildsölukvaðir sem lagðar hafa verið á Símann á heildsölumörkuðum um samtengingu (markaðir 8, 9 og 10), svo og heildsölukvaðir á heimtaugamarkaði (markaður 11) og breiðbandsmarkaði (markaður 12) sem lagðar hafa verið á Símann og Mílu, muni skila árangri við að efla virka samkeppni og styrkja hagsmuni notenda. Auk þess hvílir ótvíræð lagaskylda á Símanum sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk að veita fjarskiptafyrirtækjum forval og fast forval.
Nýjar aðgangskvaðir á heildsölustigi á mörkuðum 1 og 2, sem reifaðar voru hér að framan, styrkja forval og fast forval sem valkost fjarskiptafyrirtækja til að hasla sér völl á viðkomandi talsímamörkuðum í heildsölu. PFS mun fylgjast vel með þróuninni á viðkomandi smásölumörkuðum. PFS getur m.a. samkvæmt 2. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga ákvarðað hámarksverð alþjónustu, þ.á.m. talsímaþjónustu, ef verðþróun verður með óeðlilegum hætti.

Ákvörðun PFS nr. 30/2008 (PDF)

Viðauki A - Greining á mörkuðum 1 - 6 (PDF)

Viðauki B - Athugasemdir hagsmunaaðila og niðurstöður samráðs (PDF)

Viðauki C - Álit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) (PDF)

Viðauki D - Skýringar á afmörkun andlags kvaða á mörkuðum 1 og 2 og á ákvæði 53. gr. fjarskiptalaga varðandi forval og fast forval. (PDF)

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?