M 14 - Ákvörðun 21/2015
12. ágúst 2014
Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú ákvörðun sína nr.
21/2015 er lýtur að markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir
stofnlínuhluta leigulína (markaður 14, skv. eldri tilmælum ESA). Um er
að ræða þann hluta leigulína sem liggur á milli símstöðva/tengipunkta.
PFS hafði áður greint heildsölumarkað fyrir lúkningarhluta leigulína,
þ.e. þann hluta leigulína sem liggur frá endanotanda til
símstöðvar/tengipunkts (markaður 6), sbr. ákvörðun PFS nr. 8/2014.
Umræddar
stofnlínur eru mikilvæg aðföng í rekstri fjarskiptafyrirtækja til að
tengja saman fjarskiptakerfi þeirra bæði innanbæjar og á milli
landshluta. Slíkar leigulínur, sem oftast eru ljósleiðarar, en einnig
örbylgjusambönd á afskekktustu stöðum, eru m.a. notaðar til að tengja
farsímasenda farsímafyrirtækja.
Umræddur markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 20/2007
og þá var niðurstaðan sú að bæði Míla og Síminn voru útnefnd sem
fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og voru
viðeigandi kvaðir lagðar á bæði félögin.
Það er niðurstaða PFS
nú að Míla eitt fyrirtækja skuli útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk
að þessu sinni, þar sem Síminn starfar ekki lengur á viðkomandi markaði
eftir sátt Símasamstæðunnar og Samkeppniseftirlitsins frá 2013. Kvöðum
verður viðhaldið á Mílu til að stuðla að virkri samkeppni á hinum ýmsu
undirmörkuðum fjarskipta sem treysta á aðgang að hinu landsdekkandi
stofnleigulínukerfi Mílu í starfsemi sinni.
Megin breytingin frá
fyrri ákvörðun á viðkomandi markaði er að nú er hinn landfræðilegi
markaður skilgreindur sem landið allt, en í síðustu greiningu var hinum
landfræðilega markaði skipt í tvennt, þ.e. höfuðborgarsvæðið annars
vegar og landsbyggðin hins vegar. PFS telur ekki rök fyrir því að
viðhalda slíkri skiptingu.
Í tilmælum ESA frá 2008 er viðkomandi
markaður ekki lengur einn þeirra markaða sem taldir eru upp sem markaði
sem greina þarf sérstaklega. Því þurfti PFS að framkvæma svokallað
þriggja skilyrða próf (e. Three Criteria Test) á markaðnum til þess
skera úr um hvort forsendur væru fyrir útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og
álagningu kvaða. Skilyrðin þrjú sem markaðurinn þarf að
uppfylla eru að verulegar aðgangshindranir séu til staðar, markaðurinn sé ekki að þróast nægilega í átt til virkrar samkeppni og að almenn
samkeppnislög muni ekki duga til að leysa þau samkeppnisvandamál sem
til staðar eru. PFS telur að öll þrjú skilyrðin séu uppfyllt á umræddum markaði hér á landi.
Drög
að ákvörðun þessari voru send í innanlandssamráð þann 23. desember sl.
og stóð samráðið til 24. febrúar sl. Drög að umræddri ákvörðun voru svo
send til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og annarra eftirlitsstofnana á
EES-svæðinu til samráðs með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst-
og fjarskiptastofnun þann 1. júlí sl. Í athugasemdum sínum, dags. 3.
ágúst sl., gerði ESA engar efnislegar athugasemdir við ákvörðunardrögin.
Með ákvörðuninni nú hefur PFS lokið annarri umferð
markaðsgreininga á öllum þeim 18 mörkuðum sem skilgreindir voru í
upphaflegum tilmælum ESA frá 2004, að markaði fyrir alþjóðlegt reiki
undanskildum, en hann var ekki greindur þar sem Evrópusambandið settu um
hann sérstaka reglugerð sem innleidd var í íslenskan rétt. PFS stefnir
að því að markaðsgreiningar verði í framtíðinni endurskoðaðar eigi síðar
en með 2-3 ára millibili.
Sjá ákvörðunina og fylgiskjöl hennar í heild (PDF skjöl):
- Ákvörðun PFS nr. 21/2015 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (fyrrum markaður 14)