Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

M7 - Ákvörðun 7/2014

Þann 23. apríl 2014 birti Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun nr. 7/2014 er varðar markaðsgreiningu á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð af leigulínum (áður markaður 7).

Niðurstaða PFS er á þá leið að útnefning Símans sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði frá 2007, (sjá ákvörðun PFS nr. 20/2007), er felld niður. Þar með falla kvaðir þær sem lagðar voru á Símann með fyrrgreindri ákvörðun niður.

PFS telur að veigamestu aðgangshindranirnar sem áður voru ríkjandi á þessum markaði séu ekki lengur til staðar í þeim mæli að geta talist miklar og viðvarandi. PFS telur að þau fjarskiptafyrirtæki sem hafa þörf fyrir að bjóða viðskiptavinum sínum leigulínur í smásölu eigi greiðan aðgang að heildsöluþjónustu sem þjónar þörfum þeirra, sbr. kvaðir á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaði 6), sem nú er í samráðsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) (sjá frétt PFS frá 3. apríl sl.) Stofnunin telur engu að síður þörf á því að fylgjast náið með markaðnum og er stofnunin tilbúin að taka til skoðunar hvort gera þurfi aðra greiningu ef aðstæður breytast verulega.

Umræddur smásölumarkaður er skilgreindur sem lágmarksframboð á leigulínum með flutningsgetu allt að 2 Mb/s til endanlegra notenda. Notendur eru þeir sem nota þjónustuna í eigin þágu og nýta hana ekki sem aðföng fyrir fjarskiptaþjónustu til endursölu, þ.e. heimili og fyrirtæki.  Þetta á því ekki við önnur fjarskiptafyrirtæki. PFS skilgreinir leigulínur sem stöðuga flutningsgetu á merkjasendingum milli fyrirfram skilgreinda punkta.

PFS telur hins vegar mikilvægt að sá aðgangur sem þegar er fyrir hendi í dag sé tryggður yfir hæfilegt tímabil sem ætti að nægja til aðlögunar að niðurfellingu framangreindra kvaða. Stofnunin telur að þar sem hægt er að leita til fleiri en eins aðila varðandi smásölu á leigulínum og ekki er um að ræða mikla undirbúningsvinnu þegar skipt er um þjónustuveitanda á einstökum leigulínum, þurfi aðlögunartími ekki að vera mjög langur. PFS mælir því fyrir um að kvaðir á Símann á viðkomandi smásölumarkaði falli niður að liðnum þremur mánuðum frá birtingu þessarar ákvörðunar.

Búast má við ákvörðun PFS á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaði 6) í byrjun maí nk. Þriðji og síðasti leigulínumarkaðurinn, heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (áður markaður 14), er svo væntanlegur í innanlandssamráð í vor og er endanlegrar ákvörðunar á þeim markaði að vænta með haustinu.


Sjá ákvörðun PFS nr. 7/2014 á íslensku og ensku ásamt viðaukum:

Ákvörðun PFS nr. 7/2014

PTA Decision no. 7/2014

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?