Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

PFS birtir drög að ákvörðun um breytingar á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins og um bann á innflutningi og sölu á þráðlausum CT1 símum

11. október 2007

PFS hefur sent hagsmunaaðilum til umsagnar drög að ákvörðun um breytingar á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins (914-915/959-960 MHz) og um bann á innflutningi og sölu CT1 þráðlausra síma.  Hagsmunaaðilar, t.d. fjarskiptafyrirtæki, innflytjendur, söluaðilar fjarskiptabúnaðar og almenningur, eru hvattir til að gera athugasemdir við fyrirhugaða ákvörðun stofnunarinnar, sjái þeir einhverja annmarka á henni.

Frestur til að skila athugasemdum er til 8. nóvember n.k.

Efsti hluti GSM 900 tíðnisviðsins hefur fram að þessu verið notaður hér á landi fyrir þráðlausa síma sem byggja á CT1 tækni.  Ný stafræn tækni, DECT, sem notar annað tíðnisvið, hefur smám saman verið að leysa CT1 tæknina af hólmi.  Þráðlausir símar eru notaðir á takmörkuðu svæði, einkum á heimilum og vinnustöðum og er gerður greinarmunur á þeim og farsímum, t.d. GSM og NMT.  Samkvæmt könnun sem PFS gerði fyrr á árinu hafa innflytjendur og söluaðilar síma hvorki flutt inn né selt CT1 þráðlausa síma síðustu 2-5 árin.  Líklegt er þó að slíkir símar séu í notkun í einhverjum mæli í dag.

Helstu niðurstöður PFS

  1. PFS hyggst frá og með 1. janúar 2008 breyta skipulagi tíðnirófsins þannig að úthlutun fyrir CT1 tækni á 914-915/959-960 MHz tíðnibilinu er afturkölluð og umræddu tíðnisviði verður ráðstafað fyrir GSM þjónustu.  Er þetta gert í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir.
  2. PFS hyggst frá og með 1. janúar 2008 banna innflutning og sölu CT1 þráðlausra síma.
  3. Að svo stöddu hyggst PFS ekki banna notkun CT1 þráðlausra síma.  Notkun slíkra síma verður því ennþá heimil hér á landi eftir 1. janúar 2008, svo fremi sem þeir valda ekki skaðlegum truflunum á GSM þjónustu á umræddu tíðnisviði.  Frá og með sama tíma nýtur CT1 þráðlaus símnotkun ekki verndar vegna truflana sem kunna að stafa af farsímaþjónustu á umræddu tíðnisviði.  PFS getur látið innsigla síma eða bannað notkun þeirra og fengið þá afhenta til geymslu ef þeir trufla önnur fjarskipti eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.

Sjá nánar: 
Fyrirhuguð ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um breytingar á notkun efsta hluta GSM 900 tíðnisviðsins (914-915/959-960 MHz) og um bann á innflutningi og sölu CT1 síma(PDF)

 

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Ólafsson, gudmundur@pfs.is

Til baka