Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um leigulínumarkaði

Tungumál EN
Heim
3. júlí 2008

Þann 1. júlí 2008 staðfesti úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála í úrskurðum sínum nr. 5, 6, 7 og 8/2007 ákvörðun PFS nr. 20/2007 um leigulínumarkaði frá 14. september 2007. Um var að ræða eftirtalda markaði:

  • Markað 7 – lágmarksframboð af leigulínum,
  • Markað 13 – heildsölumarkað fyrir lúkningarhluta leigulína,
  • Markað 14 – heildsölumarkað fyrir stofnlínuhluta leigulína

Leigulínur eru notaðar til að flytja tal og gögn milli stöðva í fjarskiptanetum. Leigulínur tákna fjarskiptabúnað sem gefur kost á gagnsærri flutningsgetu milli nettengipunkta sem innifelur ekki skiptingu lína að ósk notenda. Flutningsmiðill leigulína getur verið með ýmsum hætti, t.d. koparheimtaug, ljósleiðari og þráðlaust örbylgusamband.

Útnefning Símans með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð á leigulínum og álagðar kvaðir
Í ákvörðun sinni komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði fyrir lágmarksframboð af leigulínum (markaður 7). Um er að ræða leigulínur, hliðrænar og stafrænar, með allt að 2 Mbit/s afkastagetu. PFS lagði á félagið skyldu til að veita aðgang að tilteknum leigulínum um land allt. Félagið skyldi tryggja að sú þjónusta, sem hefði verið í boði, stæði áfram til boða í hæfilegan tíma og einungis væri heimilt að fella niður þjónustu að höfðu samráði við hlutaðeigandi notendur og með fyrirfram samþykki PFS. Jafnframt voru lagðar kvaðir á félagið um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá.

Útnefning Símans og Mílu með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumörkuðum fyrir lúkningarhluta og stofnlínuhluta leigulína og álagðar kvaðir
Í ákvörðun sinni komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn og Míla hefðu hvort um sig umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumörkuðum fyrir lúkningarhluta og stofnlínuhluta leigulína (markaðir 13 og 14) varðandi þá leigulínuþjónustu sem félögin veittu. Markaðurinn fyrir lúkningu leigulína nær til þjónustu á aðgangsmarkaði á heildsölustigi en markaðurinn fyrir stofnlínuhlutann nær yfir alla leigulínuþjónustu á stofnlínukerfinu á heildsölustigi. Hér undir heyra hefðbundnar leigulínur (SDH/PDH) ásamt flutningi á rásum í fjölrása flutningakerfum samkvæmt ýmsum samskiptareglum (t.d. Ethernet, Frame Relay, DWDM, ATM og IP-MPLS) ásamt svörtum ljósleiðara (ljósleiðarasamband án endabúnaðar). Míla veitir alla ofangreinda heildsöluþjónustu nema ATM og IP-MPLS þjónustu sem er í höndum Símans.

PFS lagði á félögin skyldu til að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um aðgang fyrir lúkningarhluta og stofnlínuhluta leigulína og þjónustu á heildsölustigi. Jafnframt voru lagðar kvaðir á félögin um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá á viðkomandi heildsölumörkuðum.

Áhrif markaðsgreiningar PFS á leigulínumörkuðum
Með úrskurðum þessum er það von PFS að veigamiklum hindrunum sé rutt úr vegi þess að keppninautum samstæðu Símans (Síminn og Míla) verði gert kleift að byggja upp og þróa alhliða fjarskiptaþjónustu í samkeppni við samstæðuna með því að fá aðgang að innviðum fjarskiptakerfa samstæðunnar á heildsöluverði. Þetta er sérlega mikilvægt varðandi aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að ATM og IP netum Símans á kostnaðartengdu verði en fram til þessa hefur sú þjónusta ekki staðið öðrum fjarskiptafyrirtækjum til boða á heildsöluverði. Aðgangur að leigulínum á kostnaðartengdu verði er grundvallaratriði varðandi eflingu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins, t.d. mörkuðum fyrir talsíma, farsíma, gagnaflutning og sjónvarps- og útvarpsdreifingu.

Markmið fjarskiptalöggafarinnar og PFS með markaðsgreiningunum er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppni, sé hún ekki nægjanlega virk eins og þær niðurstöður sem nú liggja fyrir gefa til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á fjarskiptamörkuðum eflast, neytendum til hagsbóta.

Sjá úrskurðina í heild (pdf)

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2007

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2007

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 7/2007

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 8/2007


Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 20/2007

Til baka