Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli IP-fjarskipta ehf. (Tals) og Símans hf. um áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans

Tungumál EN
Heim
4. mars 2009

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2009 í ágreiningsmáli IP-fjarskipta ehf. (Tals) og Símans hf. um áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans.

Í ákvörðunarorðum segir:
„Símanum hf. er heimilt að hafna beiðni IP-fjarskipti ehf. um áframhaldandi svæðisbundinn reikiaðgang að farsímaneti sínu. Ekki er fallist á rök IP-fjarskipta ehf. fyrir því að geta ekki gengið til samninga við Símann hf. á grundvelli viðmiðunartilboðs um endursöluaðgang að farsímaneti Símans.“

Forsaga málsins
Fjarskiptafyrirtækið Tal ræður ekki yfir eigin fjarskiptaneti og kaupir í dag alla fjarskiptaþjónustu af Vodafone í heildsölu og endurselur til síðan viðskiptavina sinna á smásölustigi.
Þannig er Tali kleift að bjóða upp á farsímaþjónustu á því svæði sem farsímanet Vodafone nær til. Dreifikerfi Vodafone nær hins vegar ekki yfir allt landið. Hefur Vodafone því aðgang að farsímaneti Símans á þeim svæðum sem dreifikerfi Vodafone nær ekki til á grundvelli reikisamnings fyrirtækjanna. Hefur Tal, fram til þessa, verið með aðgang að þessu sama svæði og Vodafone á grundvelli samnings SKO og Símans, dags. 5. júlí 2006, sem Tal yfirtók vorið 2008. Rann sá samningur úr gildi sl. áramót.
Af þessum sökum hefur Tal óskað eftir áframhaldandi svæðisbundnum aðgangi að farsímaneti Símans. Síminn hefur hins vegar synjað þeirri ósk á þeim grundvelli að Tal uppfylli ekki skilyrði til þess að fá reikiaðgang hjá Símanum þar sem Tal hefur hvorki fengið úthlutað tíðnum né rekur eigið farsímanet. Er þetta í samræmi við skilyrði viðmiðunartilboðs Símans um innanlandsreiki sem samþykkt var með ákvörðun PFS nr. 13/2008.

Beiðni Tals
Í máli þessu fór Tal þess á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin hlutaðist til um að tryggja fyrirtækinu áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans á grundvelli eldri ákvörðunar PFS (nr. 4/2007) þar sem lögð var sú kvöð á Símann að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að GSM farsímaneti fyrirtækisins og þjónustu á heildsölustigi. Með ákvörðun 4/2007 var Símanum jafnframt gert skylt að birta viðmiðunartilboð um aðgang að farsímaneti félagsins. Á heimasíðu Símans eru nú birt þrjú viðmiðunartilboð um aðgang að farsímaneti félagsins, fyrir innanlandsreiki, fyrir endursöluaðgang og fyrir sýndarnetsaðgang. Er þessum viðmiðunartilboðunum ætlað að vera grundvöllur undir þær samningaviðræður sem vísað er til í aðgangskvöðinni.

Rökstuðningur ákvörðunar
Í ákvörðun PFS nú  kemur fram að réttur viðsemjanda til aðgangs að farsímaneti Símans byggist á stöðu hans hverju sinni, þ.e. hversu mikla uppbyggingu í farsímakerfum og -netum viðsemjandi hefur ráðist í eða hefur leyfi fyrir og þar með hvaða þjónustu hann hefur þörf á að kaupa af Símanum.
Viðsemjandi á ekki sjálfstæðan rétt til aðgangs að farsímaneti Símans óháð þeim aðgangsleiðum sem Símanum er skylt að veita og samkvæmt þeim skilmálum sem samþykktir hafa verið af PFS.

Hins vegar getur viðsemjandi átt rétt til aðgangs að farsímaneti sem ekki fellur að þeim tegundum aðgangs sem Síminn býður upp á, ef þær aðgangsleiðir tryggja ekki hagsmuni viðsemjanda. Beiðni um slíkan aðgang þykir að öðru leyti vera sanngjörn og eðlileg.
Tali hefur ekki tekist að sýna fram á að viðmiðunartilboð Símans fyrir endursöluaðgang sé fyrirtækinu svo óhagstætt og óaðgengilegt að sanngjarnt og eðlilegt þyki að víkja til hliðar þeim almennu skilyrðum sem um aðganginn gildir.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að sá aðgangur sem Tal óskaði eftir, þ.e. áframhaldandi svæðisbundinn aðgangur að farsímaneti Símans í gegnum reikisamning Vodafone og Símans, getur ekki talist eðlileg og sanngjörn aðgangsbeiðni, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 28. gr. fjarskiptalaga. Var Símanum því heimilt að hafna umsókn Tals um reikiaðgang að farsímaneti Símans.

Ákvörðun PFS nr. 2/2009 í ágreiningsmáli IP-fjarskipta ehf. (Tals) og Símans hf. um áframhaldandi svæðisbundinn aðgang að farsímaneti Símans(PDF) - 2. mars 2009

Sjá einnig:
Ákvörðun PFS nr. 13/2008 Um viðmiðunartilboð Símans um innanlandsreiki (PDF) - 9. júlí 2008
Viðauki við ákvörðun 13/2008  (PDF)

Ákvörðun PFS nr. 4/2007 Um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (Endanlegar ákvarðanir um markaðsgreiningu / Markaður 15) - 5. febrúar 2007

 

Til baka