Hoppa yfir valmynd

Yfirlýsing frá Póst og fjarskiptastofnun

Tungumál EN
Heim

Yfirlýsing frá Póst og fjarskiptastofnun

27. nóvember 2009

Vegna frétta sem birtar hafa verið á Stöð 2 og Vísi.is og auglýsinga Símans undanfarna daga þar sem vitnað er til úttektar og reiknivélar Póst- og fjarskiptastofnunar vill stofnunin taka fram:

Póst- og fjarskiptastofnun hefur ekki birt úttekt um verðsamanburð milli fjarskiptafyrirtækjanna nema þann mánaðarlega verðsamanburð sem birtur er á vef stofnunarinnar sem PDF skjöl.   Sá verðsamanburður byggist eingöngu á verðskrám fyrirtækjanna.

Fréttir og auglýsingar um slíka úttekt eru rangar og ekki á ábyrgð PFS.

Hið rétta er að PFS vinnur að gerð og birtingu reiknivélar fyrir neytendur.

Sú reiknivél er ekki tilbúin og hefur ekki verið birt. Stofnunin hefur haft samráð við fjarskiptafyrirtækin um gerð hennar.  Fengu fyrirtækin send vinnugögn um uppbyggingu hennar til umsagnar þann 10. nóvember sl. og frest til að skila athugasemdum til 24. nóvember.

Athugasemdir hafa þó borist eftir að fresturinn rann út og við endanlega gerð reiknivélarinnar verður metið hvort tekið verði tillit til þeirra ábendinga sem berast stofnuninni þar til í dag, föstudaginn 27. nóvember.
Þegar þeirri vinnu og tæknivinnu er lokið mun reiknivélin verða sett í loftið.  Áætlað er að það verði nú í desember, með fyrirvara um umfang athugasemda.

Birting hennar og aðgengi verður auglýst með skýrum hætti af hálfu stofnunarinnar þegar þar að kemur.

Fyrirhuguð reiknivél er hugsuð neytendum í landinu til hagsbóta.
Fyrirmynd hennar er sótt til Norðurlandanna en systurstofnanir PFS þar hafa haldið úti slíkum reiknivélum fyrir neytendur.  Mikil notkun þeirra hefur sýnt fram á þörfina fyrir að auka gagnsæi í upplýsingum um verð á mismunandi tegundum fjarskiptaþjónustu og aðstoða neytendur þar með við val á þeirri þjónustu sem þeim hentar.
Nánari upplýsingar er að finna í þessari frétt hér á vefnum sem birt var í gær, fimmtudaginn. 26. nóvember.

 

 

Til baka