Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir beiðni Gagnaveitu Reykjavíkur um hlutafjárhækkun í félaginu

Túngumál EN
Heim

PFS samþykkir beiðni Gagnaveitu Reykjavíkur um hlutafjárhækkun í félaginu

28. mars 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 2/2014 frá 24. mars sl. um beiðni Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) um samþykki PFS fyrir hlutafjáraukningu í félaginu. Niðurstaða PFS var sú að samþykkja beiðni GR varðandi 3,5 milljarða kr. hlutafjáraukningu í félaginu sem Orkuveita Reykjavíkur (OR) yrði greiðandi að, en OR á fyrir allt hlutafé í GR. 

Skilyrði samþykkisins er að umrædd hlutafjáraukning komi til lækkunar á u.þ.b. 7 milljarða kr. gengistryggðu láni GR hjá OR og að eftirstöðvar lánsins verði á sama tíma greiddar alfarið upp með endurfjármögnun hjá ótengdum aðila. Með umræddum ráðstöfunum myndi fjármögnun OR gagnvart GR lækka um 3,5 milljarða kr. og yrði þá eingöngu í formi hlutafjár.  

Þá var það skilyrði sett í ákvörðuninni að OR bæri á hverjum tíma að gera eðlilega ávöxtunarkröfu á það fjármagn sem bundið er í fjarskiptastarfsemi GR, hvort sem fjármögnunin væri í formi hlutafjár eða lánsfjár, og vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á fjarskiptamarkaði. 

Taldi PFS því að umræddar ráðstafanir brytu ekki í bága við 36. gr. fjarskiptalaga, eins og Míla ehf. hafði haldið fram, en það ákvæði leggur bann við að samkeppnisrekstur aðila er nýtur einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum (eins og OR gerir) sé niðurgreiddur af slíkri einkaleyfisstarfsemi.        

Umrædd áform GR er liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Lánsfjárhæð framangreinds láns u.þ.b. tvöfaldaðist vegna falls íslensku krónunnar í kjölfar bankahrunsins á Íslandi haustið 2008. Gangi hin fjárhagslega endurskiplagning eftir hefur OR uppi áform um að selja allt að 49% hlut í GR til ótengdra aðila. Með slíkri eignarhaldsbreytingu væri leitast við að minnka hæði GR gagnvart móðurfélaginu sem telja verður í þágu samkeppni á fjarskiptamarkaði til lengri tíma litið.

Ákvörðun PFS í heild sinni:
Ákvörðun PFS nr. 2/2014 um beiðni Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. um samþykki PFS fyrir hlutafjáraukningu í félaginu (PDF)


Til baka