Hoppa yfir valmynd

Nýtt fyrirkomulag á miðlun símaskrárupplýsinga

Tungumál EN
Heim

Nýtt fyrirkomulag á miðlun símaskrárupplýsinga

4. júní 2014

Nýtt fyrirkomulag á miðlun upplýsinga símaskrá tekur gildi þann 1. júlí nk. Í dag birtir Póst- og fjarskiptastofnun leiðbeinandi verklagsreglur til fjarskiptafyrirtækja um skráningu og miðlun slíkra upplýsinga. Þar er farið yfir hvernig best sé að samræma tæknilega framkvæmd á miðlun upplýsinganna, fyrir þau fjarskiptafyrirtæki sem úthluta símanúmerum. Markmiðið er að tryggja skilvirkni og jafna samkeppnisstöðu aðila og voru reglurnar unnar í samráði við hagsmunaaðila.

Útgáfa rafrænnar og prentaðrar símaskrár ásamt upplýsingaþjónustu um símanúmer telst til alþjónustu, sem eru tilteknir þættir fjarskiptaþjónustu sem skulu standa öllum landsmönnum til boða á viðráðanlegu verði. Lengst af hvíldi sú skylda að veita þessa þjónustu á Símanum hf. (og forverum hans) og síðar á fyrirtækinu Já upplýsingaveitum hf. Reynsla undanfarinna ára hefur leitt í ljós að forsendur eru til þess að þessi þjónusta sé boðin fram á markaðsforsendum.

Með tilliti þessa sendi Póst- og fjarskiptastofnun frá sér samráðsskjal á síðasta ári þar sem kynnt voru áform stofnunarinnar um að aflétta kvöðinni á Já upplýsingaveitum hf. um að halda úti rafrænni símaskrá og um að veita upplýsingaþjónustu um símanúmer. Niðurstaða samráðsins leiddi í ljós að Já var tilbúið að skuldbinda sig til útgáfu prentaðrar símaskrár til þriggja ára án sérstakrar kvaðar þar um og tók stofnunin, á grundvelli þess, ákvörðun, sem birt var þann 20. desember sl. um að leggja ekki slíka kvöð á ný á félagið.

Til að jafna samkeppnisstöðu milli Já upplýsingaveitna hf. og annarra aðila sem hyggjast starfrækja upplýsingaþjónustu um símanúmar hefur númerið 118 verið afturkallað með hæfilegum aðlögunartíma. Skal notkun þess hætt eigi síðar en 30. júní 2015 og símaskrárupplýsingar verða framvegis veittar í númeraröðinni 1800-1899. Nýtt fyrirkomulag á miðlun símaskrárupplýsinga felur m.a. í sér eftirfarandi:

  • Grunnupplýsingar um einstakling eða lögaðila sem kýs að vera skráður í símskrá eru: Nafn, heimilisfang, póstnúmer og símanúmer, auk bannmerkis ef viðkomandi kýs,
  • Fjarskiptafyrirtæki, sem úthluta símanúmerum, bera ábyrgð á réttleika grunnupplýsinga um áskrifendur sína í símaskrá og er skylt að miðla þeim til annarra fjarskiptafyrirtækja og/eða upplýsingaþjónustuveitenda sem eftir þeim óska,
  • Fjarskiptafyrirtækjum, sem úthluta símanúmerum, er heimilt að útvista vinnslu og skráarhaldi um símskrárupplýsingar til vinnsluaðila,
  • Í samningum við vinnsluaðila eða þjónustuveitanda um miðlun upplýsinga til þjónustuveitenda skal vera skilmáli um að upplýsingar um allar breytingar sem gerðar eru á grunnupplýsingum áskrifenda sé miðlað tilbaka til viðeigandi fjarskiptafyrirtækis sem þjónustar umræddum áskrifenda,


Sjá nánar:

Leiðbeinandi verklagsreglur PFS um skráningu og miðlun símaskrárupplýsinga

Upplýsingaskema PFS um samræmt skráarsnið

 

Til baka