Hoppa yfir valmynd

Raunlægt öryggi hýsingaraðstöðu Mílu ehf. er í flestum tilfellum í samræmi við öryggisráðstafanir félagsins og lágmarksviðmið

Tungumál EN
Heim
8. janúar 2016

 

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 36/2015 vegna úttektar stofnunarinnar á mikilvægri hýsingaraðstöðu Mílu ehf.

Stofnunin gerði frumkvæðiskönnun á raunlægu öryggi á hýsingaraðstöðu Mílu fyrir talsímaþjónustu og fast internetsamband. Míla er stærsti netrekandi fjarskiptakerfis hér á landi og er aðstaða og búnaður félagsins nauðsynlegur þáttur í fjarskiptastarfsemi margra fjarskiptafyrirtækja.

Súlurit_Hlutfall frávika og minniháttar frávika í heildaröryggisráðstöfunum

Var úttekt PFS framkvæmd á sex hýsingarstöðum Mílu með tilliti til fastanets og fór hún fram dagana 3. og 4.júní og 16. september 2015. Stóðust öll hýsingarrými Mílu úttekt stofnunarinnar að undanskildu einu,  þar sem raunlægri vernd og virkni fjarskiptanets félagsins var talið ábótavant og ekki í samræmi við öryggisráðstafanir félagsins og ákvæði 10. gr. framangreindra reglna.Í heildina voru tæplega 600 ráðstafanir skoðaðar í 28 rýmum á þessum hýsingarstöðum félagsins. Alls gerði stofnunin 163 athugasemdir sem leiddu til samtals 76 mismunandi tegunda frávika og varðaði stærstur hluti þessara frávika hýsingarrými félagsins sem ekki taldist uppfylla tilgreindar kröfur, sbr. súlurit hér fyrir neðan.

Er Mílu gert að bregðast við þeim athugasemdum sem stofnunin gerði, ýmist innan fjögurra mánaða, tólf mánaða eða við næstu reglubundnu endurskoðun áhættumats.

Skífurit - Hlutfall allra frávika af heildaröryggisráðstöfunum.

Almennt sýna niðurstöður að raunlægt öryggi á hýsingaraðstöðu Mílu, sér í lagi hvað varðar rými sem hýsa rafstýrðan búnað símstöðva, er í langflestum tilfellum í samræmi við öryggisráðstafanir félagins, sbr. 7. gr. reglna nr. 1222/2007, um raunlæga vernd fjarskiptaneta og valin lágmarksviðmið 10. gr. sömu reglna. Á myndinni hér að ofan má sjá hlutfall allra frávika af heildaröryggis-ráðstöfunum allra hýsingarrýmanna.

Úttektarskýrsla Póst- fjarskiptastofnunar er bundin trúnaði svo ekki verður gert opinbert við hvaða tilteknu öryggisráðstafanir stofnunin gerði athugasemdir við. Getur það ógnað raunlægri vernd og virkni fjarskiptanetsins og varðað almannahagsmuni.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 36/2015 - Úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar á mikilvægum tækjarýmum Mílu ehf.

 

Til baka