Hoppa yfir valmynd

Yfirlýsing Póst- og fjarskiptastofnunar vegna fréttaflutnings af gjaldskrárhækkunum Íslandspósts

Túngumál EN
Heim

Yfirlýsing Póst- og fjarskiptastofnunar vegna fréttaflutnings af gjaldskrárhækkunum Íslandspósts

14. janúar 2016

Vegna fréttaflutnings undanfarið af þeim gjaldskrárhækkunum sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur gefið Íslandspósti (ÍSP) heimild fyrir á undanförnum misserum vill stofnunin árétta eftirfarandi:

Hlutverk PFS er m.a. að staðfesta að gjaldskrá ÍSP innan einkaréttar byggi á raunkostnaði félagsins að viðbættum hæfilegum hagnaði. Ýmsir þættir í starfsemi ÍSP falla hins vegar ekki undir eftirlitshlutverk PFS með beinum hætti, t.d. dótturfélög ÍSP.

Á árinu 2015 heimilaði PFS gjaldskrárhækkanir ÍSP innan einkaréttar á bilinu 17,2% til 26,4%, mismunandi eftir tegundum þjónustu, eða um 22,3% að meðaltali. Um 2/3 þessara hækkana eru tilkomnir vegna fækkunar bréfasendinga. Af þeim sökum er ekki hægt að tengja gjaldskrárhækkanir ÍSP innan einkaréttar við almenna verðlagsþróun. Þess má einnig geta að um þriðjungur hækkananna kemur til vegna aukins launakostnaðar í kjölfar nýrra kjarasamninga, en laun og launatengdur kostnaður er um 70% af rekstrarkostnaði ÍSP innan einkaréttar.

Stofnunin tekur undir áhyggjur af því að þessar verðhækkanir ÍSP kunni að rýra stöðu bréfapósts sem vöru á markaði og sem samskiptaleiðar manna á milli. Því hefur stofnunin jafnframt á undanförnum árum tekið ýmsar ákvarðanir sem heimila ÍSP að einfalda dreifikerfið og ná þannig fram hagræðingu þegar til lengri tíma er litið. Nú síðast var tekin ákvörðun um að heimila fækkun dreifingardaga í dýrasta hluta dreifikerfisins, þar sem meðalkostnaður er margfaldur á við annars staðar.

Bókhaldslegur aðskilnaður Íslandspósts

Með ákvörðun PFS nr. 18/2013, kom m.a. fram að kostnaðarbókhald og bókhaldslegur aðskilnaður ÍSP byggði í meginatriðum á viðurkenndri aðferðarfræði í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 19/2002 og reglugerð nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekanda. PFS staðfesti síðan endanlega réttmæti bókhaldslegs aðskilnaðar ÍSP, þ.m.t. afmörkun alþjónustubyrði félagsins, til ársins 2012, sem byggir á verkgrunduðum kostnaðarreikningi (ABC kostnaðarlíkani). Sendi stofnunin frá sér yfirlýsingu þess efnis 30. júní 2015.

Við yfirferð PFS á beiðnum ÍSP um heimildir til hækkana á gjaldskrá innan einkaréttar hefur fram til þessa verið byggt á fyrrnefndu ABC kostnaðarlíkani, auk þess sem tekið hefur verið mið af magnþróun og fyrirsjáanlegum kostnaðarhækkunum félagsins. Þegar þessari aðferðarfræði er beitt er það mat PFS að afkoma ÍSP vegna þjónustu innan einkaréttar hafi verið í jafnvægi á árunum 2013 og 2014.

Af öllu framansögðu er ljóst að kostnaður við einkaréttarþjónustu er þekktur, þ.m.t. afmörkun PFS á kostnaði vegna alþjónustubyrði félagsins, sem tekið er tillit til innan einkaréttargjaldskrárinnar.

Kostnaðarlíkan Íslandspósts frá 2013 (LRAIC)

Árið 2013 hóf ÍSP að þróa nýtt kostnaðarlíkan (LRAIC) sem byggir að stórum hluta á áðurnefndu ABC kostnaðarlíkani, en er þó með veigamiklum viðbótum. PFS hefur ekki samþykkt þetta nýja kostnaðarlíkan og er það til skoðunar hjá stofnuninni. Hún byggir því heimildir sínar um gjaldskrárhækkanir á hinni fyrri aðferðafræði (ABC kostnaðarlíkani). Ef miðað yrði við LRAIC kostnaðarlíkanið sem ÍSP vill nota myndi það leiða til þess að gjaldskrá félagsins innan einkaréttar yrði hærri en PFS hefur samþykkt hingað til.

Helsta ágreiningsatriðið milli PFS og ÍSP varðandi LRAIC kostnaðarlíkanið snýr að mati á alþjónustubyrði félagsins. Með ákvörðun sinni nr. 17/2015, hafnaði PFS forsendum ÍSP fyrir alþjónustukostnaði félagsins sem hélt því fram að þessi kostnaður væri 1.192 millj. kr. sem tilheyra ætti kostnaðargrunni einkaréttar. Er það langt umfram það sem stofnunin hefur miðað við. ÍSP hefur kært ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og er málið þar til meðferðar. Það er því ljóst að óvissa ríkir um endurskoðun kostnaðargrunns einkaréttar samkvæmt LRAIC líkaninu þar til skorið hefur verið úr því máli. Ef forsendur ÍSP verða samþykktar af nefndinni má gera ráð fyrir því að gjaldskrá félagsins innan einkaréttar muni hækka umtalsvert frá því sem hún er í dag.

Það er því rangt sem komið hefur fram í umræðunni að PFS hafi heimilað hækkanir hjá ÍSP án þess að fyrir liggi mat stofnunarinnar á kostnaðargrunni félagsins. Einnig hefur verið látið að því liggja að kostnaðarhækkanir hafi orðið meiri en ella vegna áðurnefndrar óvissu varðandi hið nýja LRAIC kostnaðarlíkan ÍSP. Það er sömuleiðis rangt og í raun á skjön við staðreyndir málsins, þar sem stofnunin hefur gert ítarlegar athugasemdir við málatilbúnað ÍSP um þróun og túlkun kostnaðarlíkansins og hvaða breytur eigi að nota sem endurspegla eiga byrði félagsins vegna alþjónustukvaða. Eins og áður segir er ágreiningur um forsendur alþjónustukostnaðar nú til meðferðar hjá úrskurðanefnd. Það breytir hins vegar ekki því að á meðan málið er óútkljáð mun stofnunin halda áfram að nota sömu aðferðafræði og áður við töku ákvarðana varðandi gjaldskrárhækkanir ÍSP á þjónustu innan einkaréttar, aðferðafræði  sem byggir á staðfestu kostnaðarlíkani.

 

 

Til baka