Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS um útnefningu Mílu með alþjónustukvöð felld úr gildi

Túngumál EN
Heim

Ákvörðun PFS um útnefningu Mílu með alþjónustukvöð felld úr gildi

28. janúar 2016

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 3/2015, frá 26. janúar s.l., fellt úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 40/2014 um útnefningu Mílu ehf. með alþjónustukvöð.

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar var alþjónustukvöðin útfærð með nokkuð breyttum hætti frá því sem verið hafði. Var tilgangurinn sá að skapa jákvæðari skilyrði fyrir alþjónustuveitandann til að viðhalda og endurnýja aðgangsnet sitt, m.a. með því að lækka eigin byrði alþjónustuveitandans, draga úr landfræðilegu umfangi kvaðarinnar, mæla fyrir um málsmeðferð og fyrirframgefna kostnaðarskiptingu varðandi framlög úr alþjónustusjóði o.fl. Með þessari útfærslu var m.a. verið að horfa til markmiða fjarskiptaáætlunar Alþingis um að auka aðgengi landsmanna að háhraða gagnaflutningsþjónustu.

Hins vegar kærði Míla ehf. ákvörðunina og hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála nú komist að niðurstöðu. Að áliti nefndarinnar er um að ræða matskennda ákvörðun sem tekin var án viðhlítandi lagastoðar. Um þetta segir úrskurðarnefnd m.a. eftirfarandi:

„Vanda verður sérstaklega, að mati úrskurðarnefndar, til slíkrar ákvörðunartöku og tryggja að ekki leiki vafi á heimildum PFS, hvort sem það er á grundvelli almennra stjórnsýslureglna, s.s. lögmætisreglu, eða á grundvelli þeirra lagaheimilda sem PFS er bundin af, t.d. 21. gr. fjarskiptalaga, um fjárframlög til alþjónustu. Jafnframt verður að gera ríkar kröfur til skýrleika ákvarðana um alþjónustukvöð þannig að tryggt sé að alþjónustuveitandi geti lagt mat á þær skyldur sem á honum hvíla.“

Í ljósi þessarar niðurstöðu bresta forsendur fyrir afgreiðslu tveggja umsókna Mílu ehf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu, auk þess sem að það liggur fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að taka nýja ákvörðun um alþjónustuútnefningu á næstunni.

Sjá úrskurð úrskurðarnefndarinnar í heild:

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 3/2015. Kæra Mílu á ákvörðun PFS nr. 40/2014

 

 

 

 

Til baka