Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS um óumbeðin fjarskipti Sjálfstæðisflokksins felld úr gildi

Túngumál EN
Heim

Ákvörðun PFS um óumbeðin fjarskipti Sjálfstæðisflokksins felld úr gildi

13. júní 2016

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 6/2015, frá 9. júní sl., fellt úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 13/2015 varðandi óumbeðin fjarskipti Sjálfstæðisflokksins.

Í ákvörðun PFS komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að smáskilaboð og símtal frá Sjálfstæðisflokknum í farsíma kvartanda á kjördag árið 2014, þar sem hann var hvattur til að nýta kosningarétt sinn, hafi brotið gegn ákvæði 1. og 5. mgr. 46. gr. fjarskiptalaga. Hafði Sjálfstæðisflokkurinn, að mati stofnunarinnar, ekki sýnt fram á að hafa aflað fyrirfram samþykkis kvartanda fyrir fjarskiptunum í samræmi við framangreint ákvæði.

Að mati stofnunarinnar var það á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins að geta sýnt fram á heimild sína fyrir sendingu umræddra fjarskipta þegar þau áttu sér stað. Skráning í flokkinn ásamt skráningu símanúmers, án þess að flokkurinn upplýsti viðkomandi sérstaklega um að símanúmerið yrði notað fyrir markaðssetningu, gat að mati stofnunarinnar ekki talist uppfylla kröfur ákvæðisins um upplýst samþykki eða andmælarétt viðkomandi fyrir slíkri notkun símanúmersins.

Það var á hinn bóginn niðurstaða úrskurðarnefndar að einstaklingar veiti, með félagsaðild sinni, heimild til stjórnmálafélaganna að hafa við sig slík samskipti. Samskipti stjórnmálaflokks við flokksmenn brjóti því almennt ekki í bága við ákvæði 46. gr. nema annað sé berlega leitt í ljós. Gat kvartanda, að mati nefndarinnar, ekki geta dulist í hvaða tilgangi hann hafi veitt símanúmer sitt þegar hann skráði sig í flokkinn.

Í úrskurði sínum vísar úrskurðarnefnd einnig til mikilvægis stjórnmálasamtaka í stjórnmálakerfi lýðræðisríkja og af þeim sökum hafi PFS borið að taka til sérstakrar skoðunar, og meta á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, hvort óyggjandi væri að ekki væri fyrir hendi samþykki kvartanda. Eins telur úrskurðarnefnd að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi lagt þá skyldu á stofnunina að fjalla um sérstakt eðli stjórnmálasamtaka og meta tilgang þeirra við mat sitt á málsatvikum.

Úrskurðarnefndin telur því að ekki hafi verið útilokað að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft fyrirfram samþykki kvartanda fyrir umræddum fjarskiptasendingum og að slíkt samþykki hafi ekki verið afturkallað af hálfu kvartanda með sannanlegum hætti. Af þeirri ástæðu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Þar með telur nefndin ekki þörf á að taka til frekari skoðunar hvort að um beina markaðssetningu hafi verið að ræða eða ekki.

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 6/2015 í heild.

 

 

Til baka