Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða samráðs um úthlutun á 700 MHz tíðnisviðinu

Tungumál EN
Heim
18. júlí 2016

Í kjölfar umsóknar frá Símanum hf., frá því febrúar á þessu ári, um að fá úthlutað 2x20 MHz tíðnisviði á 700 MHz tíðnisviðinu, taldi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) rétt að gera athugun á eftirspurn eftir umræddu tíðnisviði. Í þeim tilgangi efndi stofnunin í mars s.l. til samráðs um skipulag tíðnisviðsins, þar sem m.a. var kannaður áhugi annarra aðila eftir úthlutun, auk þess sem lagðar voru tilteknar spurningar fyrir markaðsaðila varðandi nýtingu tíðnisviðsins, s.s. um heppilega stærð tíðniheimilda, gildistíma heimildanna og hvort að þær ættu að vera bundnar kvöðum um útbreiðslu þjónustu o.s.frv.

Niðurstöður samráðsins liggja nú fyrir. Alls tóku fimm aðilar þátt í samráðinu, þ.e. Síminn hf., Fjarskipti hf. (Vodafone), Nova ehf., Gagnaveita Reykjavíkur ehf. og Neyðarlínan. PFS hefur tekið saman svör þessara aðila og lýst afstöðu sinni til þeirra. Helstu niðurstöður eru þessar:  

  • Eftirspurn er jafn mikil eða meiri en framboð er af tíðnum á 700 MHz tíðnisviðinu,
  • Tíðniheimildum á 700 MHz tíðnisviðinu verður úthlutað síðar á þessu ári samkvæmt samkeppnisaðferð. Leitað verður heimildar innanríkisráðherra fyrir því að úthlutunin fari fram með uppboði,
  • Úthlutaðar verða þrjár 2x10 MHz tíðniheimildir á 700 MHz tíðnisviðinu,
  • Gildistími tíðniheimildanna verður til 15 ára,
  • Kvaðir um útbreiðslu verða lagðar á. Ráðgert er að þær skiptist í þrjá flokka, þ.e. almennar útbreiðslukröfur, sérstakar útbreiðslukröfur og útbreiðsla utan byggðar,
  • PFS mun ákvarða fjárhæð lágmarksboðs fyrir tíðniheimildirnar, fáist heimild fyrir uppboði.

PFS mun nú huga að undirbúningi tíðniuppboðs, þar sem ráðgert er að tíðniheimildir á 2100 og 2600 MHz tíðnisviðunum verði jafnframt boðnar upp fyrir háhraða farnetsþjónustur. Stofnunin áformar að eiga frekara samráð við markaðsaðila um gerð uppboðsskilmála, m.a. um atriði á borð við kröfur um lágmarksgæði þjónustunnar og mótun skilyrða um uppbyggingu og útbreiðslu á háhraða farnetsþjónustu.

Niðurstaða samráðs um 700 MHz (pdf)

Til baka