Takmarkað samráð um gjaldskrár Mílu fyrir koparheimtaugar, bitastraum og lúkningarhluta leigulína
31. mars 2017
PFS hefur haft til meðferðar kostnaðareiningar vegna gjaldskráa Mílu fyrir koparheimtaugar (markaður 4/2008), bitastraum (markaður 5/2008) og aðgang að lúkningarhluta leigulína (markaður 6/2008). Vegna innbyrðis tengsla þessara gjaldskráa er nauðsynlegt að þær taki gildi á sama tíma.
PFS hefur nú yfirfarið kostnaðarlíkön og uppbyggingu gjaldskráa Mílu á þessum þremur mörkuðum (4/2008, 5/2008 og 6/2008). Jafnframt hafa hagsmunaaðilar fengið tækifæri til að tjá sig um aðferðafræði Mílu við ákvörðun verðs sem og uppbyggingu gjaldskráa. Hins vegar byggðu kostnaðarlíkön Mílu á kostnaðargrunni frá 2014 og fór PFS fram á að Míla myndi uppfæra kostnaðarlíkönin á þessum mörkuðum miðað við rekstrarárið 2016.
Míla hefur nú uppfært kostnaðarlíkönin með nýjum upplýsingum frá síðasta rekstrarári. PFS hefur í kjölfarið yfirfarið kostnaðargreiningarnar og uppfært þau drög að ákvörðun sem PFS hafði þegar lagt fram í innanlandssamráði vegna þessara gjaldskrárbreytinga.
Þar sem uppfærslan hafði í för með sér breytingu á verðum efnir PFS nú til takmarkaðs samráðs um þessa niðurstöðu. Þar sem aðilum hefur þegar verið gefinn kostur á að tjá sig um uppbyggingu gjaldskrár Mílu og aðferðafræðina við útreikninga í fyrri samráðum er ekki gefinn kostur á að koma með athugasemdir við þessi atriði nú. Samráðið snýr eingöngu að niðurstöðu um verð úr þessum kostnaðarlíkönum og áhrif þessarar niðurstöðu á markaðinn hér á landi.
Hér með er óskað viðbragða frá fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum við framangreindum breytingum á frumdrögunum. Athugasemdir skulu berast með pósti eða með tölvupósti til Póst- og fjarskiptastofnunar, stílaðar á Huldu Ástþórsdóttur (hulda(hjá)pfs.is) ekki síðar en miðvikudaginn 19. apríl 2017. PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.
Áður en endanleg ákvörðun verður tekin mun PFS senda ákvörðunardrögin til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, og 7. gr. rammatilskipunar ESB.
Samráðsskjöl:
Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir koparheimtaugar (Markaður 4/2008)
Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir bitastraumsaðgang (Markaður 5/2008) (Uppfært 10.4.2017 með leiðréttri töflu á bls. 40)
Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir bitastraumsaðgang (Markaður 5/2008) - Viðauki 1
Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir lúkningarhluta leigulína (Markaður 6/2008)
Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir lúkningarhluta leigulína (Markaður 6/2008) - Viðauki 1
Til baka