Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Seinna samráð vegna fyrirhugaðra breytinga á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

1. mars 2018

Í janúar sl. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs um tilteknar breytingar sem stofnunin hyggst gera á reglum nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir. Um er að ræða ákvæði er varðar kröfur sem gerðar eru til frágangs tenginga í fjarskiptainntaki. Tilgangur breytinganna er annars vegar að færa orðalag viðkomandi ákvæðis í skýrara samræmi við niðurstöður PFS í tveimur ágreiningsmálum er vörðuðu frágang tenginga í fjarskiptainntaki og hins vegar að leysa úr vandkvæðum sem hafa komið upp varðandi aðgang að lausum aukaþræði innanhússfjarskiptalagnar í fjarskiptainntaki.

Í samráðinu bárust umsagnir frá sex markaðsaðilum og tóku sumar umsagnirnar til reglnanna í heild sinni og þannig umfram þær breytingar sem stofnunin efndi til samráðs um. Að mati stofnunarinnar er um að ræða gagnlegar ábendingar og athugasemdir um ýmis atriði er varða innanhússfjarskiptalagnir. Hins vegar er ekki þörf á heildarendurskoðun reglnanna og því er ekki tilefni til þess, að áliti PFS, að vinna að öðrum breytingum en stofnunin lagði til og kynnti í fyrrnefndu samráði.

PFS hefur unnið úr þeim athugasemdum umsagnaraðila er vörðuðu þær breytingar sem stofnunin lagði til. Segja má að athugasemdir umsagnaraðila hafi átt það sammerkt að fela í sér tillögur til að gera aðgengi að lausum þráðum innanhússfjarskiptalagnir greiðara, þó svo að slíkur aðgangur væri útfærður með mismunandi hætti. Helmingur umsagnaraðila lagði til að notkun svokallaðrar bræðisuðu strengenda heimtaugar við innanhússfjarskiptalögn væri að öllu leyti valkvæð við þá lausn að tengja strengendann við innanhússfjarskiptalögn í tengilista.

Að áliti PFS vegast annars vegar á sjónarmið um aukið öryggi tenginga sem eru bræðisoðnar og hins vegar sjónarmið um gott aðgengi að innanhússfjarskiptalögnum sem gerir þjónustuflutning hagkvæmari og skilvirkari. Með tilliti til þessa telur PFS að réttast sé að gera ráð fyrir báðum lausnum í öllum tilvikum. Þetta felur það í sér að ef notast er við bræðisuðu skuli ávallt setja upp tengilista og, ef um fjölbýlishús er að ræða, að festa í hann lausan aukaþráð sem liggur frá fjarskiptainntaki í hverja íbúð.

Þar sem þessi lausn er unnin upp úr athugasemdum umsagnaraðila og er frábrugðin þeim breytingum sem PFS kynnti í fyrra samráði telur PFS að það sé tilefni til að gefa markaðsaðilum annað tækifæri til að kynna sér og gera athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar.

Umsagnarfrestur er veittur til 15. mars 2018. Athugasemdir og umsagnir sendist til Björns Geirssonar á netfangið bjorn(hjá)pfs.is.

Í skjalinu hér fyrir neðan er búið að færa inn framangreindar breytingar með sýnilegum hætti.

Breyting á reglum um innanhússfjarskiptalagnir - samráðsskjal 1. mars 2018

Sjá einnig:

Niðurstöður úr samráðinu í janúar. Umsagnir umsagnaraðila og afstaða PFS

 

 

 

 

Til baka