Hoppa yfir valmynd

Kröfu um úrbætur á frágangi tenginga í fjarskiptainntaki hafnað

Túngumál EN
Heim

Kröfu um úrbætur á frágangi tenginga í fjarskiptainntaki hafnað

11. maí 2018

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í kærumáli nr. 13/2017 staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 26/2017 um frágang tenginga í fjarskiptainntaki. 

Málið varðaði kröfu Mílu ehf. um að Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) yrði gert að framkvæma úrbætur á tengingum heimtauga við innanhússfjarskiptalagnir sem voru í ósamræmi við eldri reglur um innanhússfjarskiptalagnir nr. 1109/2006, sbr. ákvörðun PFS nr. 32/2014, auk tenginga GR sem Míla ehf. taldi ekki vera í samræmi við reglurnar eins og þeim var breytt með reglum nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir. 

Hvað varðar tengingar sem framkvæmdar voru eftir reglubreytinguna er það niðurstaða úrskurðarnefndar að ekki lægi annað fyrir í málinu en að fjarskiptafyrirtæki hafi tengt innanhússlagnir í samræmi við reglur nr. 1111/2015, eftir að þær tóku gildi. 

Að því er varðar kröfu Mílu um úrbætur að öðru leyti tekur úrskurðarnefnd fram að ábyrgð á innanhússfjarskiptalögnum hvíli á húseigendum og breytingar á slíkum lögnum samkvæmt fjarskiptalögum og tilvísuðum reglum verði ekki gerðar, nema að beiðni húseigenda, sbr. 60. gr. fjarskiptalaga og 4. gr. reglna um innanhússfjarskiptalagnir nr. 1111/2015. Í reglunum sé mælt fyrir um það með hvaða hætti bregðast eigi við í því tilviki þegar fjarskiptafyrirtæki hefur þegar tengst innanhússfjarskiptalögn með bræðisuðu og engum lausum enda er til að dreifa. 

Því gæti úrskurðarnefndin ekki mælt fyrir um að brugðist sé við með öðrum hætti en kveðið er á um í gildandi reglum. Á þessum forsendum var ákvörðun PFS staðfest, með tilteknum breytingum í úrskurðarorðum.

Sjá úrskurðinn í heild:
Úrskurður úrskurðarnefndar nr. 13/2017 (pdf)

Til baka