Hoppa yfir valmynd

Síminn braut fjölmiðlalög með því að beina viðskiptavinum Sjónvarps Símans að tengdu fjarskiptafyrirtæki

Tungumál EN
Heim
3. júlí 2018

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), nr. 10/2018, kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. (Síminn) hafi brotið gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem leggur bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Með stoð í 4. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga leggur PFS 9.000.000 kr. stjórnvaldssekt á Símann sem greiðist í ríkissjóð, en hámarks sektarheimild er 10.000.000 kr.      

Þann 1. október 2015 stöðvaði Síminn dreifingu ólínulegs myndefnis Sjónvarps Símans yfir kerfi Vodafone. Með ólínulegu myndefni er átt við það sem í daglegu tali er kallað spilun á myndefni eftir pöntun (VOD) s.s. tímaflakk, frelsi og leiga á myndefni. Síðan þá hefur viðskiptavinum sjónvarpsþjónustu Vodafone ekki staðið sú þjónusta til boða, eins og raunin var fyrir þann tíma. Þeir neytendur sem hafa kosið að kaupa aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni Símans (Sjónvarp Símans Premium) hafa því þurft að vera með myndlykil frá Símanum, þar sem viðkomandi efni hefur síðan þá eingöngu verið dreift yfir IPTV kerfi Símans og myndlykla Símans. Áskrift að efninu hefur þar með eingöngu verið í boði gegnum dreifikerfi Símans og þá nær eingöngu á neti Mílu, dótturfélags Símans.

Aðilar að málinu eru fjórir, þ.e. Sýn hf. (Vodafone) og Gagnaveita Reykjavíkur ehf. (GR) sem kvörtuðu til PFS yfir meintu broti Símans, og Síminn og dótturfélag þess, Míla ehf. (Míla), sem mótmælt hafa því að brot hafi átt sér stað.

PFS hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ekki sýnt raunverulegan samningsvilja gagnvart Vodafone til að semja um lausn sjónvarpsdreifingarinnar á því tímabili sem liðið er frá því að umræddar breytingar á fyrirkomulagi sjónvarpsþjónustu Símans voru kynntar til sögunnar þann 1. október 2015.

Það er mat PFS að Síminn hefði, að einhverju leyti, getað takmarkað þau skaðlegu áhrif sem umræddar ráðstafanir höfðu á GR í samkeppni við Mílu á markaði fyrir undirliggjandi fjarskiptanet með því að ná samningi um aðgang að ljósleiðaraneti GR áður en Síminn réðst í umræddar breytingar. Hvað þann þátt málsins varðar er það niðurstaða PFS að Síminn hafi á því tímabili sem liðið er frá því að brotið var framið ekki komið fram með sanngjarna og eðlilega aðgangsbeiðni að neti GR.

Þó Síminn hefði flutt IPTV þjónustu sína yfir net GR er það mat PFS að það eitt og sér hefði ekki komið í veg fyrir brotið, því hið ólínulega myndefni, Sjónvarp Símans Premium, væri enn einungis dreift yfir IPTV kerfi og myndlykla Símans. Þar hefði með nokkrum hætti brot Símans verið yfirfært á net GR.


Nánar um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar
Í ákvörðuninni kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi brotið gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem leggur bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.   

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að framangreindum fjölmiðlalögum kom fram að ákvæðinu væri ætlað að gera notendum kleift að velja bæði myndefni og fjarskiptafyrirtæki án þess að binda sig í viðskiptum við eitt tiltekið fjarskiptafyrirtæki með því að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem hafa bæði yfir að ráða myndefni og fjarskiptanetum misnoti þá aðstöðu sína. Þá væri markmiðið að brjóta upp slíkt lóðrétt eignarhald á efni og dreifingu, þar sem hvati gæti verið fyrir einstaka fjölmiðlaþjónustuveitendur að reyna að beina viðskiptavinum sínum að tengdu fjarskiptafyrirtæki.

Ákvæði þetta var sett í umrædd fjölmiðlalög á árinu 2011 að gefnu tilefni, m.a. sökum sterkrar stöðu IPTV sjónvarpsdreifingar hér á landi, en um síðustu áramót nýttu um 80% íslenskra heimila sér slíka tækni til að nálgast myndefni. Það er mun meira en þekkist annars staðar í Evrópu. Hlutfallið hér á landi hefur farið síhækkandi síðustu ár, þrátt fyrir tilkomu OTT (e. Over The Top) tækni eins og Netflix beitir við sjónvarpsdreifingu, sem almennt er óháð undirliggjandi fjarskiptakerfum. Hér á landi eru það Síminn og Sýn (áður Vodafone) sem starfrækja slík IPTV sjónvarpsdreifikerfi.

Síminn starfrækir fjölmiðlaveitu sem samanstendur m.a. af Sjónvarpi Símans, sem sendir út sjónvarpsdagskrá (línuleg myndmiðlun), og efnisveitunni Sjónvarpi Símans Premium (ólínuleg myndmiðlun). Í máli þessu er aðeins deilt um ólínulega myndmiðlun, þar sem óumdeilt er að línuleg myndmiðlun Sjónvarps Símans nær til allra sjónvarpsdreifikerfa og er tiltæk á fjarskiptanetum allra þeirra fjarskiptafyrirtækja hér á landi sem starfrækja undirliggjandi fjarskiptanet. Síminn bar fyrir sig á fyrri stigum að umrætt bannákvæði næði aðeins til línulegrar myndmiðlunar en PFS féllst ekki á það í ákvörðun sinni nr. 3/2016. Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti þá ákvörðun PFS með úrskurði sínum nr. 3/2016.

Ágreiningur málsins snýr fyrst og fremst að því að frá og með 1. október 2015 hefur viðskiptavinum sjónvarpsþjónustu Vodafone, vegna ákvörðunar Símans þar að lútandi, ekki staðið til boða ólínuleg myndmiðlun ofangreinds sjónvarpsefnis Símans eins og raunin var fyrir þann tíma. Þeir notendur sem hafa kosið að kaupa aðgang að slíkri þjónustu hafa því þurft að vera í viðskiptum við Símann. Jafnframt hefur Síminn ekki boðið upp á umrædda myndmiðlun á ljósleiðarakerfi GR, heldur aðeins á undirliggjandi fjarskiptaneti dótturfélagsins Mílu og nokkrum öðrum staðbundnum fjarskiptanetum á landsbyggðinni. Það liggur því fyrir að þeir tugþúsundir notenda, sem nýta sér ljósleiðaratengingar GR sem burðarlag og eru viðskiptavinir Vodafone, Hringdu, Nova og fleiri félaga, hafa því í nærri þrjú ár ekki átt kost á að nálgast umrædda myndmiðlun.

Síminn hafnaði því alfarið að hafa brotið gegn umræddu ákvæði fjölmiðalalaga og taldi sig hafa sýnt samningsvilja, bæði gagnvart Vodafone og GR, en samningar hefðu ekki tekist á viðskiptalegum forsendum sökum óbilgjarnra krafna þeirra aðila. Meðal annars hefði GR synjað Símanum um þann óvirka aðgang (svörtum ljósleiðara) sem Síminn hefði óskað eftir að ljósleiðaraneti GR og aðeins boðið Símanum bitastraumsaðgang.

Í málinu liggur fyrir að frá 1. október 2015 hafi viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja en Símans staðið frammi fyrir því að aðgangur þeirra að tilteknu myndefni hafi verið takmarkaður eða þeir ekki getað nálgast slíkt myndefni án þess að þurfa að skipta um fjarskiptafyrirtæki eða tengjast fleiri en einu fjarskiptakerfi.

Þetta er einmitt það ástand sem umræddu ákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga er ætlað að koma í veg fyrir. Áður en Síminn breytti skipulagi sjónvarpsrekstrar síns og gerði línulega sjónvarpsstöð félagsins að opinni frístöð, án möguleika á ólínulegum þjónustuþáttum var þetta ástand ekki uppi, þar sem ólínulegt dagskrárefni Símans var í boði utan kerfa Símans. Þá setti Síminn á laggirnar ólínulega efnisveitu sem eingöngu var í boði yfir kerfi félagsins. Ástand þetta skapast vegna áhrifa lóðrétts eignarhalds Símans á fjölmiðlaveitu og fjarskiptafyrirtæki.

Komst PFS að þeirri niðurstöðu að á haustdögum 2015 hefði Síminn tekið meðvitaðar ákvarðanir sem hafi orðið þess valdandi að framangreint ástand skapaðist og hefur verið uppi á íslenskum sjónvarps- og fjarskiptamarkaði í nærri þrjú ár.

Ljóst er að þegar Síminn réðst í framangreindar breytingar þá stóðu félaginu til boða leiðir til að koma í veg fyrir að framangreint ástand skapaðist og hafa félaginu staðið þessar leiðir til boða allar götur síðan.

Í fyrsta lagi hefði félagið getað samið við Vodafone um aðgang þess félags að umræddu ólínulegu myndefni gegn eðlilegu endurgjaldi ef Síminn hefði kosið að gera slíkan samning og félögin hefðu náð saman á viðskiptalegum forsendum. Í öðru lagi hefði Síminn getað boðið upp á fullnægjandi OTT lausn við dreifingu á ólínulegu sjónvarpsefni sínu sem væri óháð fjarskiptakerfum eða fjarskiptanetum. Það gerði Síminn ekki, en félagið hefur upplýst um það undir rekstri málsins að slík lausn væri í þróun og nú nýlega tilkynnti Síminn um að félagið hygðist taka slíka lausn í notkun í ágúst næstkomandi, m.a. við dreifingu á Sjónvarpi Símans Premium. Það á svo eftir að koma í ljós hvort sú lausn verði talin fullnægjandi til að aflétta því ástandi sem uppi hefur verið frá haustinu 2015.

Þá hefur PFS komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ekki sýnt raunverulegan samningsvilja gagnvart Vodafone á því tímabili sem liðið er frá því að umræddar breytingar á fyrirkomulagi sjónvarpsþjónustu Símans voru kynntar til sögunnar þann 1. október 2015, þannig að unnt sé að líta svo á að það hafi í raun verið Vodafone sem hafi komið í veg fyrir að Síminn hefði, með samningum við Vodafone, getað losnað undan broti því á 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga sem PFS hefur komist að raun um að Síminn hafi framið á þeim degi. Að mati PFS stendur brot Símans því ennþá yfir.    

Þá hefði Síminn a.m.k. getað takmarkað skaðleg áhrif umræddra ráðstafana á GR í samkeppninni við Mílu á markaði fyrir undirliggjandi fjarskiptanet með því að ná samningi um aðgang að ljósleiðaraneti GR áður en Síminn réðst í umræddar breytingar. Á þeim tíma voru viðræður Símans og GR aðeins á byrjunarstigi og langt í land með samkomulag, sem raunar hefur ekki náðst ennþá. Að mati PFS hefði þessi leið ein og sér hins vegar ekki komið í veg fyrir brotið, þar sem fjarskiptahluti Símans hefði samt sem áður áfram verið eina sjónvarpsdreifikerfið sem hið ólínulega myndefni stæði til boða á, þar sem efninu væri enn einungis dreift yfir IPTV kerfi Símans, þó því væri svo veitt yfir þann hluta nets GR sem Síminn hefði aðgang að með leigu á svörtum ljósleiðara GR. Viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja á neti GR hefðu eftir sem áður ekki haft aðgang að ólínulegu efni Sjónvarps Símans. Því mætti með nokkru sanni segja að sú leið, ein og sér, hefði leitt til þess að brot Símans hefði að vissu leyti verið yfirfært yfir á net GR.

Þá er það niðurstaða PFS að Síminn hafi á því tímabili sem liðið er frá fullfrömdu broti ekki komið fram með sanngjarna og eðlilega aðgangsbeiðni að neti GR.

Með stoð í 4. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga leggur PFS 9.000.000 kr. stjórnvaldssekt á Símann sem greiðist í ríkissjóð.

Ákvörðun PFS nr. 10/2018.
Viðauki I - Lýsing á málavöxtum án trúnaðarupplýsinga

Til baka