Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun Íslandspósts á gjaldskrá innan einkaréttar í póstþjónustu

Túngumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun Íslandspósts á gjaldskrá innan einkaréttar í póstþjónustu

28. ágúst 2018

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 2/2018, var það niðurstaða stofnunarinnar að ekki væru skilyrði til þess að breyta ákvörðun Íslandspósts ohf. um fækkun dreifingardaga sem tók gildi þann 1. febrúar sl. Sjá nánar frétt stofnunarinnar þann 23. janúar 2018. Ákvörðunin kvað hins vegar einnig á um það að Íslandspóstur skyldi endurskoða gjaldskrá fyrirtækisins fyrir 1. júní 2018.

Um þetta segir m.a. í ákvörðun stofnunarinnar.

„Í svörum ÍSP kemur fram að ekki verði gerðar breytingar á gjaldskrá innan einkaréttar, né afsláttarskilyrðum vegna fækkunar dreifingardaga. Tiltekur fyrirtækið að eftir breytinguna muni verð á öllum bréfum undir 50 g vera það sama og í dag er fyrir B-póst. Verð annarra vara s.s. fjölpósts, blaða og tímarita og þyngri bréfasendinga verður óbreytt.

Það er skoðun PFS að eftir breytingarnar þurfi að endurskoða kostnaðargrunvöll gjaldskrá fyrirtækisins innan einkaréttar. Í athugun PFS var m.a. kallað eftir hvernig skipting þess hagræðis sem verður af breytingunum skiptist niður á einstaka vöruflokka og hvernig hann næðist fram. Í svari ÍSP kom eftirfarandi fram:

„Metinn er raunverulegur sparnaður í hverri rekstrareiningu fyrir sig. Í dreifingu snýst þetta um sparnað við að hætta með dreifingu A pósts í sérstökum hluta útburðarsvæðis og aðlögun stærðar útburðarsvæða að auknu magni í þeim hluta útburðarsvæða sem hafa sinnt B pósti. Í póstmiðstöð snýst sparnaðurinn fyrst og fremst um minnkun tímavinnu og næturvinnu í bréfadeild.

Þessi nálgun veldur því að sparnaðurinn dreifist á vöruflokka í sömu hlutföllum og kostnaður dreifist á þá í afkomulíkani. Ekki er reiknað með að kostnaður vegna yfirstjórnunar, markaðskostnaður og sameiginlegur kostnaður breytist.“

PFS telur að það hagræði sem ÍSP telur að verði við breytingarnar eigi að skila sér til þeirra notenda þjónustunnar sem við á hverju sinni. Stofnunin telur einnig eðlilegt að beðið sé með slíka endurskoðun þar til ákveðin reynsla er komin af þeim breytingum sem til stendur að gera, er þá stofnunin m.a. horfa til þess hvernig eftirspurn eftir þjónustu póstsins muni þróast, t.d. að hve miklu leyti A póstur skili sér niður í B póst (D+3), eins og ÍSP virðist gera ráð fyrir eða hvort hann hverfi allur af markaðnum, eins og haldið er fram af hálfu PM. Að mati PFS getur reynslan ein skorið úr um þetta atriði.“

Jafnframt tiltók stofnunin nokkur atriði sem Íslandspósti bæri að taka mið af við  endurskoðunina.

Eftir ítrekaða eftirgrennslan barst síðan erindi frá Íslandspósti, dags. 22. júní 2018, sem ber heitið:
„Endurskoðun kostnaðargrundvallar og verðbreytingar í einkaréttarpósti“

Í erindinu fer Íslandspóstur fram á 8% hækkun á bréfum innan einkaréttar, þ.e. að almenn bréf (áður B póstur) hækki úr 180 kr. í 195 kr. og að magnpóstur fari úr 126 kr. í 136 kr. Um rökstuðning fyrirtækisins vísast til erindisins sjálfs.  

Samkvæmt 6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 ber Póst- og fjarskiptastofnun að samþykkja gjaldskrárbreytingar innan einkaréttar.

Þar sem þær breytingar sem nú er lagðar, af hálfu Íslandspósts á gjaldskrá innan einkaréttar, tengjast ekki eingöngu venjubundnum þáttum sem hafa áhrif á kostnaðargrunn gjaldskrárinnar, s.s. magnminnkun, launaþróun, þeirri alþjónustubyrði sem innifalin hefur verið í gjaldskránni o.s.frv., heldur einnig forsendum og sjónarmiðum sem lagðar voru til grundvallar þeim miklu breytingum sem urðu á þjónustu Íslandspósts þann 1. febrúar sl. og fjallað er um í ákvörðun PFS nr. 2/2018, telur PFS því rétt að kalla eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila. Samráðið er takmarkað við almenn sjónarmið sem tengjast þeim breytingum sem voru gerðar og fjallað var um í ákvörðun PFS nr. 2/2018.

Frestur til að skila inn athugasemdum, ef einhverjar eru, er til 15. september nk.

Til baka