Hoppa yfir valmynd

Samantekt PFS að loknu samráði um framlengingu á MMDS tíðnileyfi Fjarskipta ehf. (Vodafone)

Tungumál EN
Heim
12. apríl 2011

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) gaf þann 20. janúar síðastliðinn út samráðsskjal vegna beiðni Og fjarskipta ehf. (nú Fjarskipti ehf.) um framlengingu á MMDS 2,6 GHz tíðnileyfi félagsins til níu ára.  Um er að ræða tíðni sem fyrirtækið hefur m.a. notað til dreifingar á Fjölvarpinu. Að teknu tilliti til þeirra umsagna og athugasemda sem bárust við samráðsskjalið gerir PFS ráð fyrir að framlengja tíðnileyfi félagsins til næstu þriggja ára.

Þegar horft er til framtíðar er ljóst að auknar kröfur eru gerðar um meiri bandbreidd fyrir þráðlausar farnetsþjónustur (þráðlaus háhraðanet) og því er að mati PFS mikilvægt að losa sem fyrst þau tíðnisvið sem nú þegar hafa verið samræmd fyrir þessa þjónustu. Þetta kemur enda skýrt fram í umsögnum hagsmunaaðila um samráðsskjalið og er 2,6 GHz nefnt í því sambandi. Það tíðnisvið er eitt af þeim fyrstu sem úthlutað hefur verið fyrir farnetsþjónustur í Evrópu og því ber PFS að stefna að því að losa tíðnisviðið fyrir slíka þjónustu.  Í nokkrum löndum Evrópu hefur verið sett upp á 2,6 GHz svonefnt LTE (enska: Long Term Evolution) sem er þráðlaus farnetstækni. Vegna þess að LTE  býður upp á verulega framför frá eldri stöðlum, t.d GSM, vísa sumir til að þess sem 4G (fjórðu kynslóðar) tækni.

Fyrirhuguð niðurstaða PFS er því að framlengja tíðniheimild Vodafone til þriggja ára með möguleika á frekari framlengingu ef samráð um tíðnistefnu PFS, sem fram fer á árinu 2011, leiðir í ljós að ekki verði sóst eftir 2,6 GHz tíðnisviðinu fyrir farnetsþjónustur.

Að loknum þessum þremur árum kemur einnig til greina að Vodafone fái að halda hluta 2,6 GHz tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu sem þá gæti borið færri dagskrár til þeirra sem svo óska á höfuðborgarsvæðinu og víðar (t.d. þar sem ekki væru uppbyggð línukerfi) auk þess sem það gæti þá þjónað sumarhúsabyggðum til einhverrar framtíðar.

Hefur Fjarskiptum verið tilkynnt um þessa fyrirhuguðu ákvörðun PFS með formlegum hætti og fyrirtækinu gefinn kostur á andmælum.

Sjá nánar:
Samantekt umsagna úr samráði – niðurstaða PFS (PDF)

 

Til baka