Hoppa yfir valmynd

Ársskýrsla PFS fyrir 2004 er komin út - endurmeta þarf fjarskiptaeftirlit

Tungumál EN
Heim

Ársskýrsla PFS fyrir 2004 er komin út - endurmeta þarf fjarskiptaeftirlit

22. júní 2005

Ör þróun í tækni og viðskiptum krefst endurmats á fjarskiptaeftirliti.

Íslendingar standa á tímamótum í fjarskiptum með einkavæðingu Símans, hraðfleygum tækniframförum og samruna fjarskipta, upplýsingatækni og fjölmiðlunar. Þetta kallar á endurmat á grunnþáttum eftirlits á fjarskiptamarkaði og skýra þarf betur hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu PFS fyrir árið 2004 sem er komin út.  Þá segir í ávarpi Hrafnkels V. Gíslasonar forstjóra, að lög og reglur um fjarskipti annars vegar, og fjölmiðla hins vegar, séu ekki nógu skýr og taki ekki á samnýtingu í fjölmiðlun og fjarskiptaþjónustu. 

Miklar breytingar urðu í eignarhaldi fjarskiptafyrirtækja á árinu 2004 og tvö þau stærstu, Síminn og Og fjarskipti,  keyptu sjónvarpsstöðvar. Skráðum fjarskiptafyrirtækjum fjölgaði töluvert og voru þau 55 í árslok. Tölfræðiyfirlit í ársskýrslu endurspeglar líka örar breytingar í samskiptamynstri landsmanna með stórauknum áskriftum að háhraðatengingum og vaxandi farsímanotkun. Þá kemur fram í ársskýrslu að tvíkeppni ríki enn á símamarkaði með 74% markaðshlutdeild Símans á innanlandssímtölum á fastaneti og 64,5% hlutdeild á farsímamarkaði, miðað við fjölda viðskiptavina.

Póst- og fjarskiptastofnun tekur virkan þátt í alþjóðasamstarfi og samráði evrópskra eftirlitsstofnana á sviði fjarskipta og upplýsingatækni. Á árinu 2004 fengu Íslendingar aðild að nýrri Evrópustofnunu um net- og upplýsingaöryggi sem samræma mun staðla og lagaumhverfi á evrópska efnahagssvæðinu.

Sjá ársskýrslu PFS fyrir árið 2004 (pdf-snið 1,66 MB)

Sjá einblöðung um íslenskan fjarskiptamarkað í tölum 2004 (pdf-snið 1 MB)
 

Til baka