Hoppa yfir valmynd

Samráð um lausar FM tíðnir á höfuðborgarsvæðinu

Tungumál EN
Heim
27. október 2011

Í opinberu samráði um tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar sem fram fór í sumar kom fram sú skoðun eins hagsmunaaðila að skortur kynni að vera á lausum tíðnum fyrir FM hljóðvarp á  höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að á FM tíðnisviðinu eru u.þ.b. 10 tíðnir lausar fyrir FM senda á þessu svæði, háð staðsetningum og sendistyrk senda. Stofnunin mun eftir sem áður halda fráteknum tíðnum fyrir skammtímaúthlutun til útsendinga hljóðvarps, t.d. á vegum skóla og félagasamtaka.
Eftirfarandi tíðnir eru lausar:
89.0 – 89.6 MHz, 91.9 MHz, 96.2 MHz, 101.0 – 101.5 MHz, 103.4 – 104.0 MHz, 106.0 – 106.7 MHz. Þá verður tíðnin 100,5 MHz laus þann 1. desember 2011.

Stofnuninni hefur borist umsókn um eina af ofangreindum tíðnum, 100.5 MHz, frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf.

Í framhaldi af samráðinu um tíðnistefnu PFS og þeim umsögnum sem bárust hefur stofnunin ákveðið að kanna áhuga hagsmunaaðila á úthlutun tíðna á höfuðborgarsvæðinu. Óskað er eftir því að áhugasamir sendi umsóknir um tíðnir til notkunar fyrir rekstur FM hljóðvarps til stofnunarinnar fyrir 21. nóvember 2011. Athygli er vakin á því að skilyrði fyrir úthlutun tíðna til reksturs hljóðvarps er að fengist hafi leyfi til hljóðmiðlunar frá fjölmiðlanefnd.

Að loknum umsóknarfresti (samráði) hyggst stofnunin úthluta tíðnum til þeirra umsækjenda sem sótt hafa um og hafa fengið hljóðmiðlunarleyfi. Komi til þess að fleiri en einn aðili óski eftir sömu tíðninni mun stofnunin efna til samkeppni milli viðkomandi aðila til að skera úr um hver hlýtur tíðnina.

Nánari upplýsingar veitir Þorleifur Jónasson, thorleifur(hjá)pfs.is

 

Til baka