Hoppa yfir valmynd

Ný reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu

Tungumál EN
Heim
8. júní 2011

Birt hefur verið í Stjórnartíðindum ný reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu, nr. 526/2011. Reglugerðin tekur til reikningagerðar fjarskiptafyrirtækja fyrir talsíma-, farsíma- og netþjónustu.  Hún nær ekki til reikningagerðar fyrir virðisaukandi þjónustu (aukakostnaður s.s. vegna símakosningar eða leikjanotkunar) eða aðra þjónustuþætti sem kann að vera gjaldfært fyrir samhliða reikningi fyrir fyrrnefnda þjónustuflokka.

Í 5. gr. reglugerðarinnar eru taldir upp þeir þættir sem að lágmarki skulu koma fram á almennum reikningum til áskrifenda fyrir fjarskiptanotkun:

 • Reikningstímabil
 • Þjónustuveitanda
 • Heiti þjónustu
 • Aðferð og einingar gjaldtökumælingar
 • Fast mánaðargjald
 • Seðilgjald
 • Önnur þjónustu- og umsýslugjöld
 • Aukaleg mánaðagjöld, t.a.m. vegna leigu búnaðar, læsinga, númerabirtinga og annarrar sérþjónustu.
 • Öll eingreiðslugjöld, s.s. vegna tengikostnaðar, stofngjalda, uppsagna eða annarra breytinga á þjónustu
 • Sundurgreindan heildarkostnað eftir tegund notkunar, þ.m.t. símtal í talsíma, far­síma, símtöl til útlanda, internetsímtöl og símtöl í númer með yfirgjaldi, SMS og MMS
 • Sundurliðuð notkunargjöld skv. 6. gr. og 7. gr. reglugerðarinnar (sjá hér fyrir neðan)
 • Upphæð afsláttar skv. viðkomandi þjónustuleið
 • Virðisaukaskatt og önnur opinber gjöld
 • Heildarfjárhæð reiknings með virðisaukaskatti.

Í 6. og 7. gr. reglugerðarinnar er tiltekið hvernig sundurliða skal upplýsingar vegna tal-, farsíma- og netþjónustu. Varðandi tal- og farsímanotkun skulu koma fram upp­lýsingar um:

 • fjölda símtala í talsíma og farsíma
 • upphafsgjöld
 • raunlengd og gjaldfærð lengd
 • gjaldfærð upphæð símtala
 • símtöl til útlanda
 • upplýsingar um fjölda texta- og myndskilaboða (SMS/MMS) eða aðrar gerðir gagnaskilaboða sundur­liðuð eftir gerð.

Varðandi netþjónustu skal sundurliða reikninga þannig að fram komi hvert er raunmagn þeirra mælieininga, gagna eða tíma, sem notaðar voru á gjaldtímabilinu. Einnig magn innifalið í áskrift, og magn og upphæð vegna gjaldfærðrar umframnotkunar.

Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að neytendavernd með aukinni upplýsingagjöf um hvað liggur að baki gjaldtöku og auðvelda neytendum að fylgjast með fjarskiptanotkun sinni.  Um leið aukast möguleikar neytenda á að taka upplýstar ákvarðanir um val á þjónustu og njóta þeirra hagsbóta sem samkeppni á þessum markaði veitir.

Reglugerðin tekur gildi þann 1. júlí nk.

Sjá reglugerðina í heild á vef Stjórnartíðinda: Reglugerð um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu nr. 526/2011


 

Til baka