Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Heimild Íslandspósts til að endursenda póst vegna skorts á merkingu bréfakassa bundin skilyrðum

11. janúar 2012

Á fyrri helmingi síðasta árs boðaði Íslandspóstur breytingu á verklagsreglum um póstútburð þess efnis að póstsendingar yrðu einungis afhentar ef nafn viðtakanda væri merkt á lúgu eða bréfakassa viðkomandi húsnæðis. Skyldi breytingin taka gildi þann 15. maí 2011 og að þeim tíma liðnum yrðu póstsendingar endursendar ef kröfu um merkingu nafns viðtakanda á viðtökustað væri ekki fullnægt. Áður hafði sú regla gilt um afhendingu pósts í fjölbýlishúsum, en skyldi nú einnig taka til einbýlis-, rað- og parhúsa. Í tilefni af þessu bárust Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kvartanir frá nokkrum notendum póstþjónustu. Töldu þeir af ýmsum ástæðum að fyrirhuguð framkvæmd stæðist ekki lög um póstþjónustu nr. 19/2002, m.a. um að hún bryti gegn friðhelgi einkalífs og ætti sér ekki nægilega skýra lagastoð.

Beindi PFS þeim tilmælum til Íslandspósts að fresta fyrirhugaðri breytingu á verklagsreglum sínum þar til stofnuninni hefði gefist kostur á að kanna lögmæti hennar með tilliti til fram kominna athugasemda kvartenda.

Með ákvörðun sinni nr. 1/2012 kemst PFS að þeirri niðurstöðu að umrædd breyting Íslandspósts á vinnureglum um póstútburð sé í samræmi við heimild í 4. mgr. 31. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu, og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 133/2002 um breytingu á byggingarreglugerð nr. 441/1998, með síðari breytingum.
 
Á hinn bóginn telur PFS að Íslandspósti sé ekki heimilt að líta á endursendar póstsendingar sem óskilasendingar, þó svo að skilyrði um merkingar á viðtökustað séu ekki uppfyllt. Að áliti PFS gengur úrræði 32. gr. póstlaga, um að opna póstsendingu í þeim tilgangi að hafa upp á sendanda hennar, gegn meginreglu ákvæðisins um að gerðar skuli eðlilegar ráðstafanir til að hafa upp á viðtakanda og felur í sér íþyngjandi inngrip í friðhelgi einkalífs. Um þetta segir í ákvörðunarorðum:

„Séu skilyrði 4. mgr. 31. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu uppfyllt, sem heimila endursendingu pósts, er Íslandspósti óheimilt, í þeim tilvikum sem upplýsingar um sendanda er ekki að finna á umslagi eða umbúðum sendingar, að fara með slíkar sendingar sem óskilasendingar og beita úrræðum 32. gr. póstlaga um að opna póstsendingu í þeim tilgangi að hafa upp á sendanda, ella farga sendingu beri það ekki árangur.“

Þá telur PFS í ákvörðun sinni að Íslandspóstur þurfi að endurtaka kynningu á fyrirhuguðum breytingum og, með tilliti til meðalhófs, að meta hvort ekki sé hægt að fara vægar í sakirnar, sbr. eftirfarandi fyrirmæli til fyrirtækisins:

„Íslandspóstur skal efna til almennrar kynningar á fyrirhuguðum breytingum með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara áður en hún kemur til framkvæmda. Leggur PFS það fyrir Íslandspóst að taka það til skoðunar hvort unnt sé að beita vægari úrræðum, stigskipta aðgerðum og framkvæma þær svæðisbundið á meðan verið er að ná breytingunum fram. Fer PFS fram á að Íslandspóstur skili stofnuninni skriflegri greinargerð um þetta fyrir 1. febrúar 2012.“     

 

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 1/2012 vegna kröfu Íslandspósts um nafnmerkingu bréfakassa (PDF)

 

 

Til baka