Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um framlengingu á MMDS tíðniheimild Vodafone

Tungumál EN
Heim
28. október 2011

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 18/2011.

Málið varðar tíðniheimild, sem fyrirtækið (þá Og Vodafone ehf., nú Fjarskipti ehf.) hefur haft frá árinu 2003, til reksturs stafræns sjónvarps á MMDS rásum (2500-2684 MHz), annarsvegar á SV-horni (Suðurnes til Akraness) og hins vegar á Suðurlandi austur að Kirkjubæjarklaustri. Tíðniheimild þessi rann út þann 27. júní 2011 og óskaði Fjarskipti ehf. (Vodafone) eftir því að Póst og fjarskiptastofnun framlengdi hana um 9 ár, eða fram til ársins 2020.

Í ákvörðun PFS er komist að þeirri niðurstöðu að gildistími MMDS tíðniheimildar Fjarskipta ehf. verði framlengdur til þriggja ára með möguleika á því að framlengja gildistímann lengur, m.t.t. til niðurstöðu samráðs um tíðnistefnu stofnunarinnar þar sem m.a verður kannað hvort eftirspurn er eftir 2.6 GHz tíðnisviðinu. Helgast þessi niðurstaða af því að umrætt tíðnisvið hefur verið skilgreint til nota sem framtíðar tíðnisvið fyrir fjórðu kynslóðar farnetsþjónustu með samræmingarákvörðun ESB nr. 2008/477/EB.

Fjarskipti ehf. kærði ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurði hennar segir m.a. nefndin hafi farið yfir þann lagagrundvöll sem hin kærða ákvörðun er byggð á og þær málsmeðferðarreglur sem til álita koma en sú könnun leiði ekki til þess að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Ekki sé grundvöllur til þess að hnekkja mati PFS um nauðsyn á notkun tíðnisviðsins fyrir fjórðu kynslóða farnetsþjónustu. Staðfesta beri því hina kærðu ákvörðun hvað varðar framlengingu tíðniheimildar kæranda til þriggja ára. Að þeim tíma liðnum komi til greina að Vodafone fái leyfi til að halda smærri eða stærri hluta 2.6 GHz tíðnisviðsins fyrir MMDS þjónustu verði þess óskað og ef tíðnistefna PFS og úttekt á hagsmunum neytenda og fjarskiptafyrirtækja leiðir í ljós að slíkt leyfi sé réttlætanlegt.

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar í heild (PDF)

 

 

Til baka