Hoppa yfir valmynd

Brotalamir á verkferlum varðandi gagnagrunn símaskrárupplýsinga

Túngumál EN
Heim

Brotalamir á verkferlum varðandi gagnagrunn símaskrárupplýsinga

22. september 2016

Sumarið 2014 var tekið upp nýtt skipulag um miðlun og vistun símaskrárupplýsinga. Horfið var frá því að gagnagrunnshald á símaskrárupplýsingum væri eingöngu á hendi upplýsingaþjónustuveitunnar Já ehf. Samkvæmt nýja fyrirkomulaginu skyldu fjarskiptafyrirtækin sjálf annast skráarhaldið og tryggja gagnkvæma miðlun símaskrárupplýsinga til fjarskiptafyrirtækja og þjónustuveitenda um símaskrárupplýsingar. Markmið þessara breytinga var að skapa svigrúm fyrir samkeppni á markaði þjónustuveitenda um símaskrárupplýsingar.

Í framkvæmd var þessu háttað þannig að aukið var við virkni sameiginlegs gagnagrunns símanúmera, þ.e. Hins íslenska númerafélags ehf. (HÍN), sem skyldi jafnframt gegna hlutverki sameiginlegs og miðlægs gagnagrunns fjarskiptafyrirtækjanna um símskrárupplýsingar. Þjónustuveitendur um símaskrárupplýsingar gætu sótt upplýsingarnar í gagnagrunn HÍN í rauntíma og sætu þar með við sama borð hvað varðar grunnupplýsingar um símanúmer. Það er því á ábyrgð fjarskiptafyrirtækja, sem úthluta númerum, að tryggja réttleika símaskrárupplýsinga í gagnagrunni HÍN.

Í framhaldi af þessu breytta fyrirkomulagi á skráarhaldi símaskrárupplýsinga fóru Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að berast ábendingar um villur í símaskrárupplýsingum og að gagnagrunnur HÍN væri ekki í samræmi við gagnagrunn upplýsingaþjónustuveitunnar Já ehf., sem um langt árabil hefur starfað á þessu sviði. Í ljósi þess að ávallt er hægt að finna einhver frávik í réttleika í upplýsingagrunni og að einstök dæmi um slíkt geta aldrei sagt til um réttleika grunnsins í heild sinni ákvað PFS að framkvæma úttekt á verkferlum fjarskiptafyrirtækjanna við skráningu og miðlun upplýsinga í gagnagrunn HÍN.

Úttektin var framkvæmd í formi huldurannsóknar sem fram fór yfir tveggja mánaða tímabil í sumar. Markaðs- og rágjafarfyrirtækið MMR var fengið til að velja hóp þátttakenda sem falið var að stofna símaskráráskriftir og í framhaldi af því óska eftir tilteknum breytingum á símaskrárupplýsingum. Voru slíkar breytingaróskir prófaðar með kerfisbundnum hætti hjá hverju fjarskiptafyrirtæki fyrir sig og niðurstöður skráðar á samræmdan hátt. Nú liggur niðurstaða úttektarinnar fyrir og bendir hún sterklega til þess að innri verkferlar fjarskiptafyrirtækja við skráningu og miðlun símaskrárupplýsinga í HÍN séu ekki í lagi.

Ekkert fjarskiptafyrirtæki sem úttektin beindist að getur talist hafa staðist úttektina. Í því ljósi telur PFS ekki vera tilefni til að sundurgreina niðurstöðurnar eftir einstökum fjarskiptafyrirtækjum. Að fenginni þessari niðurstöðu hefur stofnunin lagt fyrir fjarskiptafyrirtækin að endurskoða innri verkferla sína um skráningu og miðlun símaskrárupplýsinga í gagnagrunn HÍN.

PFS áætlar að endurtaka úttektina að tilteknum tíma liðnum. Er vonast til þess að þá hafi endurbættir verkferlar verið innleiddir hjá fjarskiptafélögunum og verulegar úrbætur hafi átt sér stað varðandi meðhöndlun símaskrárupplýsinga.

Sjá skýrslu um úttektina og niðurstöður hennar í skjalinu hér fyrir neðan.

Úttekt á réttleika símaskrárupplýsinga

 

 

Til baka